150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Lausnargjaldið heitir borgarlína. Hvað sem líður hugsanlegum og væntanlegum rekstrarkostnaði borgarlínu er alveg ljóst að framkvæmdirnar verða gríðarlega dýrar. Maður hefur heyrt áætlunum hent fram allt frá 50 upp í 100 milljarða, 120 milljarða jafnvel, en sambærileg dæmi frá útlöndum sýna að slíkar áætlanir fara iðulega algerlega úr böndunum svoleiðis að við vitum ekki hvert þetta gjald verður. Við vitum ekki hvert endanlegt lausnargjald verður fyrir það að ríkið fái að ráðast í þær framkvæmdir sem hefði átt að ráðast í fyrir mörgum árum síðan, ef ekki hefði verið samið um framkvæmdastopp í Reykjavík. Vissulega leggja sveitarfélögin þarna fjármagn til. En þegar við lítum á heildarverkefnapakkann þá leggja sveitarfélögin, Reykjavíkurborg ekki hvað síst, mun minna til en þeim bæri ef það væri eðlileg skipting á kostnaðinum miðað við verkefnin sem lagt er upp með.