150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Fyrst við erum farin að tala um viðhald vega þá verð ég að upplýsa um, samkvæmt siðareglum Alþingis, hagsmuni sem ég hef af viðhaldi vega. Ég hef unnið í 23 sumur við malbiksgerð, setið í malbikunarstöðinni og afgreitt malbik á bílana og hef þar af leiðandi þeirra hagsmuna að gæta að sem mest sé sett í viðhald vega, bara svo ég nefni það.

Það eru bara sömu sjónarmið, öryggissjónarmiðin, greiðfærni, hagkvæmni o.s.frv. Það er mjög gott að fá þessar tölur frá hv. þingmanni, að FÍB hafi bent á að það sé 33% dýrara ef einkaaðilar fara í þessa framkvæmd. Hver græðir á því? Hver græðir á því að taka verkefni út fyrir sviga, út fyrir þennan faglegan ramma samgönguáætlunar? Að sjálfsögðu er það samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem fær bróðurpartinn, alla vega þrjár framkvæmdir, held ég, í sitt kjördæmi og að sjálfsögðu fá síðan einkaaðilarnir frábæran fjárfestingarkost í langtímaverkefni, (Forseti hringir.) góðan og öruggan fjárfestingarkost. En já, Vaðlaheiðargöng (Forseti hringir.) eru auðvitað mikilvæg en þetta er ekki spurning um það. Þetta er spurning um forgangsröðun á mikilvægi. (Forseti hringir.) Það er það sem er rammað inn í samgönguáætlun en ráðherra vill (Forseti hringir.) taka út fyrir sviga.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)