150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:08]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hef ég aðallega verið á landsbyggðinni en mig langar aðeins að koma hingað til borgarinnar. Mig langar að koma aðeins inn á hina títtræddu borgarlínu eða þau áform sem þar eru, en samkvæmt skrifum borgar- og bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu telja þeir að borgarlína sé hagkvæm og vistvæn leið til að stórauka flutningsgetu samgöngukerfisins, bæta lífsgæði íbúa, stytta ferðatíma, draga úr slysum og lækka byggingarkostnað. Nánari skoðun leiðir hins vegar í ljós að ólíklegt er að það sé borgarlínan sem geti uppfyllt þessar miklu væntingar. Verkefnið er samt á miklu skriði eins og við vitum, og gæti kostað 1–2 millj. kr. á hvert heimili. Áætlaður kostnaður er upp á 70–150 milljarða en fyrir þvílíka upphæð væri hægt að gera margt annað og áhrifaríkara til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ótrúlega stór fjárfesting sem mun hafa slæm áhrif á afkomu allra íbúa á svæðinu. Sé fjárhæðinni deilt á þau 85.000 heimili sem eru á svæðinu leggjast 0,8–1,8 milljónir á hvert heimili. Þá er ekki meðtalinn sá fórnarkostnaður sem felst í því að akreinar, sem búið er að fjárfesta verulega í á liðnum árum, verða færðar undir borgarlínu auk þess sem bílastæðum og grænum svæðum verður fórnað. Borgarlínan mun t.d. leggjast þvert yfir Keldnaholt sem nú er grænt svæði. Ekki má heldur gleyma þeirri röskun á umferð sem fylgir svona framkvæmdum við umferðaræðar sem munu standa í um 10–15 ár.

Það mun vera forsenda fyrir rekstri borgarlínu að áhugi almennings á að ferðast með almenningssamgöngum þrefaldist frá því sem nú er. Nú eru aðeins 4% ferða á höfuðborgarsvæðinu farnar með strætó, en hlutfallið þarf að ná 12% svo að dæmið gangi upp. Ef þessi forsenda bregst gæti rekstrartap borgarlínu numið milljörðum árlega. Það virðist því sem borgarlína sé einstaklega óhagkvæm og áhættusöm framkvæmd og með minni útgjöldum og margvíslegum hætti mætti ná fram mun meiri árangri í að bæta samgöngur á svæðinu. Það er sáralítil eftirspurn eftir þeirri tegund flutningsgetu sem borgarlína býður. Það er lítið gagn í því að hálftómir borgarlínuvagnar hringli um leiðakerfið. Hins vegar er öruggt að sú tegund flutningsgetu sem nú er mjög eftirsótt mun skerðast verulega þegar akreinar sem nú nýtast fólksbílum verða helgaðar borgarlínu. Borgarlína mun því auka umferðarteppur á álagstímum en ekki draga úr þeim.

Í niðurlagsorðum skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins COWI um borgarlínu er staðfest sú skoðun að eftirspurn eftir borgarlínu verði ekki nægjanleg. Því þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að efla eftirspurn. Í lauslegri þýðingu telur COWI nauðsynlegt að grípa til fremur ógeðfelldra þvingunaraðgerða til að ná upp nægum farþegafjölda í borgarlínu. Meðal annars er lagt til að almenningsvagnar fái forgang í umferðinni á kostnað fólksbíla auk aðhaldssamrar stefnumótunar í bílastæðamálum. Borgarlínuvagnar verða rafknúnir sem er vistvænt í sjálfu sér en vagnarnir verða samt ekki endilega vistvænni en rafbílar. Sætanýting í þungum og stórum borgarlínuvagni þarf að vera mjög góð eigi orkunotkun á hvern farþega að vera minni en hjá farþega í léttum rafbíl. Um leið og tíðni ferða er aukin minnkar sætanýting. Ólíkt rafbílum munu borgarlínuvagnar oft þurfa að aka tómir.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er að verða búinn og ég er ekki búinn með ræðuna. Ég óska eftir að vera settur á mælendaskrá á ný.