150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:48]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um samgönguáætlun í nokkra daga og ekki ætla ég að finna að því, enda er málið umfangsmikið, og er þar engin breyting á frá fyrri árum þegar rætt er um samgöngumál um landið allt. Ég hef fullan skilning á því að hér komi menn úr sínum kjördæmum til að reifa sín sjónarmið og leggja áherslur á framkvæmdir, einkum í sínu kjördæmi. En svo hef ég heyrt hér að höfuðborgarsvæðið hefur fengið dágóða umræðu, einkum í ljósi þess að það horfir til smánýbreytni hvað samgönguáætlun varðar þar sem gert er ráð fyrir hinum margumrædda höfuðborgarsamningi í tengslum við framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og ég ætla að ræða það aðeins hér á eftir. Ég ætla að skauta fram hjá landsbyggðinni að öllu leyti, með fullri virðingu fyrir landsbyggðinni og öllum þeim þörfu framkvæmdum sem þar blasa við af ýmsu tagi, jarðgangagerð og háfjallavegir og annað. Ég ætla eingöngu að ræða málefni Reykjavíkur, ekki einu sinni höfuðborgarsvæðisins sem ég heyrði að voru til umræðu hér rétt á undan, bara málefni Reykjavíkur.

Það er full ástæða til að árétta það sem áður hefur komið fram í ræðum margra þingmanna að hér í Reykjavík hefur síðasta áratug verið framkvæmdastopp. Það er vegna þess samkomulags sem var gert á sínum tíma um það að veita ekkert fé til framkvæmda í Reykjavík heldur veita meira fé en áður hafði verið gert til almenningssamgangna í þeirri viðleitni að reyna að auka hlutdeild þeirra í öllum ferðum innan höfuðborgarsvæðisins. Þetta hefur haft afdrifaríkar afleiðingar í Reykjavík. Þar ríkir ófremdarástand í samgöngumálum, algert ófremdarástand. Það er mjög brýnt að ráðist verði í vegaframkvæmdir í Reykjavík. Því miður er í þessari samgönguáætlun ekki nema að örlitlu leyti horft til vegaframkvæmda í Reykjavík. Ég get næstum því sagt að það sé ekkert gert ráð fyrir vegaframkvæmdum í Reykjavík. Það er ekki alveg hægt að segja það vegna þess að gert er ráð fyrir örlitlum framkvæmdum við ein gatnamót sem ég ætla að rekja hér á eftir.

Þetta framkvæmdastopp hefur valdið því að samgöngumál í Reykjavík eru í ólestri og það hefur haft afdrifaríkar og miklar afleiðingar af ýmsum toga. Það er auðvitað brýnt öryggismál að vegir séu þannig úr garði gerðir að þeir anni þeirri umferð sem um þá fer og umferðin í Reykjavík og í gegnum Reykjavík, einkum og sér í lagi, hefur aukist gríðarlega af margvíslegum orsökum, ekki bara vegna ferðamanna heldur líka vegna þeirrar fjölgunar sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu öllu. Það hefur aukið umferðina og er brýnt að hlúð verði að öryggismálum.

Þetta hefur líka haft þær afleiðingar, sem eru mjög bagalegar fyrir Reykjavík, og ég myndi hafa áhyggjur af væri ég í forsvari í borgarmálunum, en ég geri það líka sem Reykvíkingur að langfeðgatali í báðar áttir og sem 1. þm. Reykv. s., að það hefur orðið atgervisflótti bæði opinberra stofnana og fyrirtækja úr Reykjavík og fyrirtækja og stofnana ríkisins sem hafa verið í áratugi í Reykjavík sem leita á önnur mið. Nú síðast horfðum við á eftir Hafró yfir í Hafnarfjörð.

Menn þekkja það að ég vann að því með lögreglunni, þegar ég sat í ráðuneyti dómsmála, að leita að heppilegra húsnæði. Það liggur fyrir að lögreglan þarf að flytja af Hverfisgötunni. Þá koma ýmsir staðir til greina en þeir eru flestir utan Reykjavíkur. Ég lét skoða það og kanna sérstaklega hvernig færi á því að flytja lögregluna til nágrannasveitarfélaganna og það er ekkert sem mælir því í mót en það er einungis einn staður í Reykjavík sem kæmi til greina, við Sundahöfn, fyrir lögregluna í Reykjavík en nokkrir staðir aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Ég hafði af því áhyggjur að heyra sjónarmið sumra úr lögreglunni sem höfðu ekkert á móti því sérstaklega að fara úr Reykjavík og þessu ættu borgaryfirvöld hafa áhyggjur af. Landsrétti, sem tók til starfa í minni ráðherratíð, var fundinn staður utan Reykjavíkur, í Kópavogi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er líka staðsettur í Kópavogi. Það er ekki sýslumaður í höfuðborginni lengur og svona mætti lengi telja. Af einkafyrirtækjum get ég nefnt Icelandair sem hefur flutt umfangsmikla starfsemi sína í Hafnarfjörð. Þetta ætti að vera áhyggjuefni fyrir borgaryfirvöld. Þetta er þróun sem ekki sér fyrir endann á.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir hinum svokallaða höfuðborgarsáttmála sem sveitarfélögin í kringum okkur rituðu undir ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu um uppbyggingu í samgöngumálum. Þannig háttar til að í höfuðborgarsamningnum er gert ráð fyrir ágætisvegaframkvæmdum til handa nágrannasveitarfélögunum þannig að þau fá töluvert fyrir sinn snúð. En þegar kemur að Reykjavík er þar einkum gert ráð fyrir hinni svokölluðu borgarlínu sem er algjörlega óútfært fyrirbæri. Ég ætla ekki að ræða borgarlínuna sérstaklega þar sem það er efni í aðra umræðu en eins og hún er núna virðist ekki vera hönd á festandi hvernig hún er. Það sem aðallega er gert í þágu Reykjavíkur er þessi borgarlína sem á að koma og gert er ráð fyrir gatnamótum við Elliðaárdal og enda Fossvogsbrautar, en aðrar raunverulegar vegasamgöngur eru ekki í farvatninu. Það er mjög alvarlegt. Gert er ráð fyrir 50 milljörðum í þessa svokölluðu borgarlínu en látið hjá líða að huga að einföldum vegaframkvæmdum í Reykjavík sem eru hagkvæmar, skila árangri mjög fljótt og eru líka ódýrar. Þá er ég helst að horfa til mislægra gatnamóta sem blasa við öllu fólki sem eitthvað hefur komið að samgöngumálum og Vegagerðin hefur ítrekað lagt til að verði farið í; mislægra gatnamóta á mótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar og Miklubrautar og Grensásvegar.

Við það verður ekki lengur unað að ekki verði farið í framkvæmd sem þessa sem kostar brotabrot, nokkra milljarða, af þeirri fjárhæð sem hugsuð er í borgarlínu, sem er algjörlega óútfært fyrirbæri. Því miður er í þessari samgönguáætlun gert ráð fyrir að helmingur þess fjár sem er ætlað að fara til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu fari í vegaframkvæmdir við stofnbrautir en helmingurinn í fyrirbæri sem menn hafa bara því miður hingað til nánast kosið að hunsa, þ.e. í almenningssamgöngur. Ég ætla hins vegar ekki að standa hér og tala í mót almenningssamgöngum, alls ekki. Það þarf auðvitað að hlúa að þeim og engin borg eða bæjarfélag með einhvern metnað lætur hjá líða að bjóða upp á einhvers konar almenningssamgöngur.

Það liggur fyrir og kemur fram í þessum sáttmála að stefnt er að því að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna úr 4% í 8%. Þetta er miðað við 2011, þá var miðað við 4%. En það er enn þann dag í dag 4%, hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu eða á Íslandi er 4% eða í þeim almenningssamgöngum sem hér um ræðir. Það er borin von að hún verði komin upp í 8%. Og þó svo að við næðum almenningssamgöngum upp í 8% er fráleitt að ætla að útdeila af almannafé 50 milljörðum til almenningssamgangna þegar þátttaka almennings í þeim samgöngum er ekki meiri en þessi.

Ég hef það fyrir víst að fyrir nokkrum árum þegar borgarfulltrúar voru að kynna sér þessi mál, í árdaga þessara hugmynda, og fóru til sérfræðinga í Þýskalandi, ég held í Freiburg, þar sem er fræg borgarlína, þar sem menn kynntu þessar hugmyndir og voru að leita ráða, voru þeir spurðir: Hvað eru margir sem nota almenningssamgöngur? Það voru 2%–3% þá. Menn göptu og skilaboðin til Íslendinga voru þau að reyna ekki að hugleiða fyrirbæri eins og borgarlínu, sama hvernig það væri útfært, reyna ekki að hugleiða slíkt fyrirbæri fyrr en búið væri að ná almenningssamgöngum almennt upp í 40%. Allt annað er draumsýn, er alger skortur á raunveruleikatengingu.

Þetta þurfum við Reykvíkingar nú að una við, að ríkið hafi samið við Reykjavíkurborg um áframhaldandi framkvæmdastopp í Reykjavík með tilheyrandi skerðingu á lífsgæðum Reykvíkinga, með tilheyrandi öryggisbrestum í umferðinni.

Höfuðborgarsáttmálinn gagnast hins vegar þessum nágrannasveitarfélögum okkar ágætlega. Þau eru að fá langþráðar vegaframkvæmdir sem hafa setið á hakanum af hálfu ríkisins undanfarin ár og óska ég þeim til hamingju með það. Í ofanálag fá þau þessa borgarlínu sem mér sýnist að þau þurfi lítið að leggja út fyrir, nágrannasveitarfélögin, heldur komi þetta að mestu leyti úr hendi ríkisins með einhvers konar gjaldtöku. En ég ætla ekki að ræða það, það er enn önnur umræða hvort réttlætanlegt sé í Reykjavík, þar sem umferðin er svona mikil, hér búa 123.000 manns, að leggja aukaálögur á bíleigendur til að fjármagna þetta áhugamál borgaryfirvalda.

Við þetta má líka bæta, og ég held að það sé nauðsynlegt að ræða það, og reyndar er komið inn á það í áliti meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, að aðstæður í dag eru allt aðrar þegar kemur að útdeilingu skattfjár vegna útgjalda ríkisins en voru þegar þessi samgönguáætlun var lögð fram. Eftir Covid-faraldurinn blasir við mörg hundruð milljarða halli ríkissjóðs sem ekki nokkur maður bjóst við þegar samið var um 50 milljarða í borgarlínu og einungis 50 milljarða í raunverulegar samgöngubætur hér á höfuðborgarsvæðinu. Nú blasir þessi halli við.

Ég sakna þess reyndar, verð ég að segja, frá félögum mínum í meiri hluta nefndarinnar, að hafa ekki fjallað örlítið meira um þann forsendubrest sem orðið hefur í kjölfar Covid og hvernig hann kemur til með að hafa áhrif á uppbyggingu samgönguinnviða. Þar er að vísu bent á það, sem má deila um, þessu er mjög gjarnan slegið fram, er nokkurs konar frasi, að í svona árferði, miklum tekjusamdrætti og efnahagslegum áföllum, sé einmitt alveg frábær tími til þess að fara í mjög mikla uppbyggingu á samgönguinnviðum og vegaframkvæmdum. Látum það liggja á milli hluta. En það liggur alveg fyrir að sá peningur sem menn héldu að yrði til, þegar þeir settu samgönguáætlun fram og skrifuðu undir höfuðborgarsáttmálann, verður ekki til á næstu árum. Menn þurfa bara að horfast í augu við þann raunveruleika. Þá skiptir mjög miklu máli að það takmarkaða fé sem er til staðar komi hingað til Reykjavíkur, og ég legg áherslu á það, til að bæta úr því ófremdarástandi sem hér er í samgöngumálum, og verði veitt í skynsamlegan farveg og hagkvæman.

Ég legg aftur áherslu á og ítreka að þótt það væru ekki nema þessi tvennu mislægu gatnamót sem ég nefndi áðan myndi það strax létta mikið á umferð og gera hana hagkvæmari. Það má ekki gleyma því heldur að borgarstæðið, lega borgarinnar og borgarlandið, er þannig uppbyggt að menn verða að horfast í augu við það að umferðarflæði þarf að vera greitt.

Að lokum vil ég nefna það þegar menn fjandskapast út í einkabílinn í þessum sal, út í það sem ég hef kallað besta vin heimilisfólks eða fjölskyldnanna í landinu, barnafólks og þeirra sem þurfa að fara um langan veg og þurfa að sinna erindum, sinna öldruðum foreldrum út um hvippinn og hvappinn, skutla og keyra eftir ýmislegri þjónustu, það eru einhverjir sem vilja fjandskapast út í bílinn, að bíllinn hefur aldrei verið eins öruggur og hann er í dag, eins hagkvæmur í rekstri og hann er í dag og eins umhverfisvænn og hann er í dag. Hvað gerist þá, um leið og bílarnir eru orðnir svona umhverfisvænir? Vinstri mennirnir linna ekki látum. Menn eru kannski komnir með bíl sem jafnvel mengar ekkert. Margir hverjir hafa kvartað yfir því og þá er fundinn bíll sem mengar ekki, en menn linna ekki látum, þeir hætta samt ekki.

Ég veit ekki, virðulegur forseti, hvað það er nákvæmlega sem knýr menn áfram í þessum málflutningi gegn fjölskyldunum í landinu, gegn fólkinu sem margt hefur nóg að sýsla í dag, sem betur fer, og á börn sem eru í tómstundastarfi. Það var ekki þannig þegar ég var barn að það þyrfti að keyra börn út um hvippinn og hvappinn til að sinna tónlistarnámi eða íþróttanámi. Slíkt var bara ekki í boði. Nú er það í boði og þá þarf að sinna því. Kemur þá ekki eitthvert fólk sem er á móti einkabílnum.

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan fagna ég því að það séu almenningssamgöngur en mönnum hefur ekki einu sinni tekist skammlaust hér í Reykjavík að reka almenningssamgöngur með venjulegum strætisvögnum. Hringlandaháttur endalaust með leiðarkerfi og tíðni ferða. Það hefur ekkert rekið eða gengið. Menn hafa ekki einu sinni viljað prófa að bjóða upp á ókeypis aðgang í strætó í smátíma til þess að sjá hvort það myndi auka þátttökuna, væntanlega þora menn það ekki í borginni. Það væri kannski reynandi að prófa það fyrst og bæta þær almenningssamgöngur sem hér eru fyrir. Þegar við tölum um að bæta samgöngur í Reykjavík þá skiptir miklu máli og er brýnt að við séum að fjölga umferðaræðunum, ekki bara að breyta þeim úr vegum fyrir bíla í vegi fyrir almenningssamgöngur og ekki bara, eins og höfuðborgarsáttmálinn gerir ráð fyrir, að færa bílana ofan í jarðgöng í Reykjavík og gera alla sem keyra um á bílum, kannski mörgum sinnum á dag um Miklubrautina, að einhvers konar moldvörpum, senda þá neðan jarðar til að ferðast. Það bætir ekki umferð eða greiðir fyrir umferð um borgina að færa hana til. Það þarf að fjölga æðunum þannig að það dragi úr álagi á einstökum vegum. Það verður helst gert með mislægum gatnamótum, það er ódýrasta og hagkvæmasta leiðin. Menn þurfa ekki að vera hræddir við mislæg gatnamót, að þau séu eins og menn sjá í bandarískum bíómyndum frá 1970. Mislæg gatnamót taka í dag tillit til gangandi vegfarenda og hjólandi. Þau rísa ekki hátt upp frá jörðu. Þau geta jafnvel bara risið einhverja 2 metra, er mér sagt af sérfræðingum í þessum málum hjá Vegagerðinni. Menn þurfa ekki að hræðast það.

Þetta er það, virðulegur forseti, sem við hér í Reykjavík þurfum að leggja áherslu á. Ég geri það, legg mikla áherslu á það. Þess vegna svíður mig að samgönguáætlun sem þessi skuli enn og aftur ekki taka tillit til þarfa fjölskyldnanna í Reykjavík.