150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var byrjaður að ræða almenningssamgöngumálin í síðustu ræðu. Ég var rétt að byrja að nefna borgarlínuna svokölluðu í því sambandi. Í millitíðinni gerðist það að hv. þm. Sigríður Á. Andersen flutti firnagóða ræðu um samgönguáætlun og nefndi reyndar borgarlínuna en gat þess, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar gert líka, að menn vissu ekkert hvað það væri, það væri óútfært. Eflaust er það afstaða ríkisstjórnarinnar að þetta sé allt saman óútfært en það er ekki afstaða borgarinnar, það er ekki afstaða borgarstjórnarmeirihlutans sem heldur áfram að dæla út skýrslum og greinargerðum um borgarlínuna. Þau skipta reyndar mjög um skoðun á því hvernig eigi að hanna þetta fyrirbæri en virðast þó hafa sína skoðun á því hvað borgarlína eigi að vera.

Maður óttast það, í ljósi reynslunnar, að vilji borgarstjórnarmeirihlutans verði ofan á hvað þetta varðar eins og svo margt annað í samskiptum borgarinnar og ríkisins, sérstaklega er varðar samgöngumál og skipulagsmál. Þá er niðurstaðan einfaldlega sú að hér er verið að skuldbinda ríkið nánast, leggja klafa á herðar skattgreiðendum til langrar framtíðar eða þangað til að ungir eða a.m.k. tiltölulega ungir og sprækir þingmenn eins og hv. þm. Brynjar Níelsson verða komnir hátt á áttræðisaldur og meira að segja hæstv. fjármálaráðherra kominn á sjötugsaldur, farinn að nálgast sjötugt. Fram að þeim tíma verður ríkið, og skattgreiðendur, skuldbundið til að borga í verkefni sem stjórnvöld sjálf, ríkisstjórnin, segja að sé enn óútfært. Hvernig má það vera að samið sé með þeim hætti?

Ég mun í seinni ræðu í þessari umræðu fjalla sérstaklega um þennan samning og eðli hans eða samgöngusáttmálann eins og hann er kallaður. Í grófum dráttum gengur hann einfaldlega út á það að ríkið er að gefa frá sér vald til borgarinnar og til nýs apparats, nýs opinbers hlutafélags, sem á að fara með þessi mál öll til þess að það geti svo unnið að því að uppfylla kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík og tryggja þá væntanlega að rauða Reykjavík verði rauð til næstu ára, jafnvel áratuga.

Hvað varðar eðli málsins sjálfs, borgarlínunnar, er farið yfir það í mjög nýlegri skýrslu, frá því í maí á þessu ári, frá verkefnastofu borgarlínu. Það vill reyndar svo til að þessi verkefnastofa borgarlínu á einfaldlega að fá öll völd yfir samgöngusáttmálanum meðan verið er að klára að stofna opinbera hlutafélagið sem ég nefndi áðan. Verkefnastofan gaf út skýrslu í maí, Borgarlínan. Ártúnshöfði–Hamraborg. Drög að matsáætlun. Þetta er um fyrsta áfanga. Þar kemur ýmislegt áhugavert fram um hvert er stefnt með þetta, til að mynda að árið 2040 verði hlutdeild almenningssamgangna 12% ferða á höfuðborgarsvæðinu en hlutdeild gangandi og hjólandi 30%.

Í fyrsta lagi veit ég ekki hvernig menn ætla að meta þessi 30%. Þeir geta eflaust útfært það til þess að ná upp þessari tölu ef þeir fara til að mynda að telja ferðir fólks innan húss eins og flestar ferðir voru hérna síðustu mánuðina. Þar fara menn yfirleitt gangandi. Hlutdeild einkabílsins, eins og hér segir, fjölskyldubílsins, á að fara niður í 58%. Nú er þessi hlutdeild 75%. Hún á sem sagt að fara niður í 58% og hlutdeild almenningssamgangna úr 4% í 12%. Eins og ég gat um í fyrri ræðu og hv. þm. Sigríður Á. Andersen nefndi og fleiri þá hefur þetta markmið um að auka notkun almenningssamgangna áður komið fram. Það er skemmst frá því að segja að það hefur ekki náðst. Því fer fjarri. Það hefur raunar engin breyting orðið á þessum 4% þrátt fyrir stórátak sem ríkið varði í milljörðum á milljarða ofan í áratug.

Forseti. Þetta er voðalega erfitt við að eiga þegar maður hefur bara fimm mínútur til ráðstöfunar og er rétt að komast af stað í einu umræðuefni þegar ræðutíminn er búinn. Maður þarf eiginlega að byrja frá grunni næst. En ég get ekki kennt hæstv. forseta um þetta. Það er kannski frekar við okkur sjálf að sakast að hafa ekki farið fram á lengri ræðutíma.