150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Eins mikið og það gleður mig að sjá þennan forseta í forsetastól þá get ég ekki annað en saknað þess að hún sé ekki með okkur hér í umræðu sem helsti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í almenningssamgöngum. En væntanlega gefst okkur tækifæri til að eiga orðastað við hv. þingmann og hæstv. forseta næstu daga þegar við höldum áfram umræðu um þetta mál.

Mig langaði til að ánýja aðeins það sem fram kom í síðustu ræðu minni, þar sem ég var að ígrunda uppdrátt sem er á bls. 72 í langtímaáætlun, sem fylgir hér samgönguáætlun hinni síðari, þar sem fram kom, eins og ég sagði þá, að borgarlínu er ætlað að liggja til suðurs eða suðvesturs, líklega frá Hringbraut meðfram flugvellinum, því sem eftir er af honum, og yfir brú sem upphaflega var ætluð til að flytja gangandi fólk og hjólandi. En eftir þessa breytingu á þessi brú að flytja gangandi og hjólandi umferð og borgarlínu og það hlýtur að vera dásamlegt að hjóla og ganga í útblæstri frá þeim ferlíkjum sem þarna eiga eftir að fara um.

Ég hafði áhyggjur af því, frú forseti, að samkvæmt þessum uppdrætti er borgarlínu ætlað að fara um 60 ára gamla götu í Kópavogi sem heitir Borgarholtsbraut, venjuleg húsagata og með barnaskóla beggja megin við, hús sem eru ekki langt inni í lóð þannig að þau standa í sjálfu sér við þessa götu. Ég verð að segja, frú forseti, að þetta veldur mér gríðarlegum áhyggjum og vonbrigðum. Ég bara skil ekki af hverju menn völdu þessa leið og nú tala ég eins og myndir þær sem við höfum verið að sjá undanfarið af þessum borgarlínuvögnum séu sannar, að þetta séu liðskiptir vagnar stærri en strætisvagnarnir sem við notum í dag. Þetta finnst mér mjög alvarlegt, frú forseti.

Það er annað sem ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir. Það er ekki nóg með það að hlutur ríkisstjórnarinnar, þ.e. hluti þess hlutar, verði greiddur af því að selja eina helstu perlu í landareignum á Reykjavíkursvæðinu, þ.e. Keldnalandið, heldur á borgarlínan að fara í gegnum Keldnalandið. Í þessum tilfellum þarna, utan Borgarholtsbrautar, á að leggja nýjar akbrautir fyrir borgarlínuna og nú verður lítið um það sem sagt var hér einhvern tímann á dögunum um rauða dregla samhliða annarri umferð í Reykjavík. Þarna á að brjóta nýtt land undir um Keldnaland og um Blikastaðaland áleiðis upp í Mosfellsbæ.

Forseti. Við þingmenn Miðflokksins höfum varað við því að þessi framkvæmd sé óljós. Það viti í sjálfu sér enginn hvernig hún lítur út og sumir hafa viðurkennt það eins og hæstv. fjármálaráðherra, hann veit ekki hvað borgarlína er þó að hann sé reiðubúinn að fjármagna hana með 50 milljörðum úr ríkissjóði. Ég verð að viðurkenna, og ég segi aftur það sem ég sagði í ræðu hér fyrir skömmu, að umræðan er farin að minna á aðra umræðu, drykklanga, sem við áttum hér í fyrra um annað mál. Það vildi svo til að sú umræða dýpkaði viðkomandi mál og leiddi fram ansi margar nýjar staðreyndir sem sumar hverjar hafa orðið að raunveruleika á því ári sem liðið er. Mér er farið að finnast að þessi umræða sé einmitt að þróast þannig, þ.e. að nú sé farið að skýrast ögn við hvað er átt með svokallaðri borgarlínu og að nú fari menn að sjá framan í hvers vegna þessi peningaaustur er svona gríðarlegur, ef brjóta þarf nýtt land undir þessar akbrautir fyrir þessa svokölluðu borgarlínu.

Því miður er tími minn útrunninn rétt einu sinni. Ég verð að biðja forseta að setja mig á mælendaskrá enn einu sinni.