150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég fjallaði í síðustu ræðu um ýmis sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar og ætla aðeins að grípa þar niður á nokkrum stöðum, en minni hlutann skipa hv. þingmenn Miðflokksins, Karl Gauti Hjaltason og Bergþór Ólason. Þeir víkja að því í áliti sínu að það sé með öllu óljóst hver muni eiga eða eftir atvikum hafa tekjur af því rými sem myndast ef Miklabraut verður sett í stokk, eins og það er orðað, að hluta. Reyndar er það svo, herra forseti, að þessar hugmyndir um Miklubraut í stokk hafa kannski ekki verið rökstuddar eða grundaðar með fullnægjandi hætti. Ég minnist þess ekki að hafa séð kostnaðar- og nytjagreiningu varðandi slíkt verkefni. Reyndar er það spurning hvað yrði um það landrými sem myndi eftir atvikum skapast við slíka framkvæmd, þarna eru því margar spurningar.

Í áliti minni hluta er það rakið að enginn viti hvort það verði Reykjavíkurborg eða hlutafélaginu, verði það stofnað, við erum að tala um hið opinbera hlutafélag sem á að halda utan um þessar framkvæmdir, sem ætlað er að hafa fjárfestingar með höndum og rekstur sem tengist samgöngusáttmálanum. Eins og hér hefur verið nefnt ítrekað í kvöld er vikið að því í minnihlutaálitinu að fullkomin óvissa ríkir um rekstrarforsendur borgarlínu, eins og það er orðað, eftir að hún er orðin að veruleika og því áliti lýst að hætt sé við að rekstur hennar verði klafi á sveitarfélögunum um langa framtíð.

Í nefndaráliti 2. minni hluta segir, með leyfi forseta:

„Miðflokkurinn telur að aðrar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, sem setið hafa á hakanum allt of lengi, kalli á tafarlausar úrbætur og að tryggja verði nægilegt fé til þeirra. Þar ber hæst stofnbrautir og telur Miðflokkurinn rétt að setja Miklubraut efst á þann lista til þess að greiða hindrunarlausa för á milli austur- og vesturhluta borgarinnar. Slík framkvæmd myndi auka mjög öryggi borgarbúa. Ástæða er til að nefna sömuleiðis í þessu samhengi Kringlumýrarbraut og Reykjanesbraut. Sundabraut er sérstakt verkefni sem lengi hefur verið beðið eftir og var af hálfu íbúa á Kjalarnesi forsenda fyrir sameiningu við Reykjavík. Meiri hluti borgarstjórnar í Reykjavík sýnist hins vegar hafa ákveðið að víkja áformum um Sundabraut til hliðar með ákvörðunum sínum og í raun hafa gert allt til að torvelda framkvæmdina og gera hana dýrari en ella.“

Það er auðvitað svo, herra forseti, að þessar aðgerðir og ákvarðanir borgaryfirvalda hafa náttúrlega ratað í fréttir og verið frá þessu greint, ekki síst framkvæmdir og ákvarðanir inni í Vogum, eins og sagt er. Þess er að minnast að vegamálastjóri mun hafa ritað borgaryfirvöldum bréf þar sem vakin er athygli á því að þessar aðgerðir og ákvarðanir geri Sundabrautina dýrari en ella og hefur talan 10 milljarðar heyrst í því sambandi.

Ég hyggst fjalla nánar um frekari þætti í þessu áliti minni hlutans, herra forseti, og óska eftir því að vera skráður að nýju á mælendaskrá.