150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég var kominn þar að að við erum að tala um flugvöllinn og ætla ég að leitast við að klára þann kafla. Í samningi sem ráðherra og borgarstjóri gerðu fyrir hönd ríkis og borgar, um framkvæmd veðurfarsrannsókna í Hvassahrauni, er tilgreint að innanlandsflugvöllur verði í Vatnsmýri uns jafngóður eða betri kostur á suðvesturhorninu verði tilbúinn til notkunar.

Nú stendur yfir undirbúningur að framkvæmdum við frekari byggð í Skerjafirði og þegar hafa risið margar byggingar á svokölluðu Valssvæði. Við í 2. minni hluta leggjum áherslu á það að óforsvaranlegt sé að breyting á deiliskipulagi verði gerð án þess að fullnægjandi rannsóknir á áhrifum þessarar uppbyggingar á flugöryggi liggi fyrir. Er í því sambandi bent á samning Isavia við hollensku geimferðarstofnunina, um úttekt sem vænta má frétta af í júlí nk. Nauðsynlegt er, frú forseti, að stjórnvöld tryggi að ráðrúm gefist til rannsókna áður en nýtt deiliskipulag fyrir svæðið verður samþykkt. Einnig er nauðsynlegt að eftirlitsaðilar eins og Samgöngustofa, sem sinnir vottun mannvirkja eins og flugvalla og innviða þeirra, gefi álit sitt áður en framkvæmdir hefjast svo að fyrirbyggja megi óafturkræfan skaða. Það er ótækt að skilyrði til flugs og flugrekstrar á vellinum versni þannig að tilveru vallarins sé stefnt í hættu, hvað þá ef ég tala um flugöryggi.

Talandi um flugöryggi vil ég einnig nefna öryggi á vegum. Allar vegabætur, hvort sem eru brýr, betri vegir, breiðari vegir, tvíbreiðir vegir, stytting leiða á milli staða og margt annað sem mætti telja upp — allt er þetta til að auka öryggi. Það verða færri kílómetrar sem fólk þarf að aka á leið sinni til og frá stöðum og slysum fækkar á hvern kílómetra. Allar vegabætur eru til þess gerðar að auka öryggi. Ég vil nefna þetta hér sem eitt það brýnasta sem þarf að gera í samgöngumálum, þ.e. að auka öryggi vegfarenda. Þar er augljóslega mikið verk að vinna á næstu árum og hefur umhverfis- og samgöngunefnd beint sjónum að þessu atriði í störfum sínum, en nokkur dæmi ætla ég að nefna samt varðandi öryggi á vegum.

Ástand á mörgum vegarköflum er slíkt að íbúar og ferðafólk upplifa sig ekki örugga á þeim, enda umferðarþunginn mikill allt árið um kring. Vegir eru víða þröngir og vegaxlir lélegar eða hreinlega ekki til staðar. Þessa vegi þarf að breikka og styrkja vegaxlir og einnig þarf að gera ráð fyrir hjólreiðafólki í þeim framkvæmdum sem ráðist er í. Rista þarf í fleiri vegi, svokallaðar rifflur, sem eykur öryggi umtalsvert og þá þarf að byggja vegrið á fleiri vegi en nú er, sérstaklega þar sem bratt er niður af vegum. Varðandi það erfiða verkefni að fækka einbreiðum brúm vindur því smám saman fram þótt mörgum finnist að heldur hægt fari. Ég er nú einn af þeim. Allra mikilvægast er að þeim verði útrýmt sem allra fyrst af þjóðvegi eitt. Síðast þegar ég keyrði til Hornafjarðar gerði ég mér þann leik að telja brýrnar og skrá þær hjá mér. Ég held að þær hafi verið 19 á þeim tíma en þeim gæti hafa fækkað eitthvað síðan, kannski eru þær 17 í dag eða eitthvað slíkt, það var verið að vinna við eina eða tvær. Þetta gengur of hægt, frú forseti. Það eykur öryggið ef þessum brúm verður fækkað.

Síðast en ekki síst í þessu sambandi, þegar talað er um aukið umferðaröryggi, er nauðsynlegt að efla sýnilega löggæslu á vegum úti svo að unnt sé að sporna við hraðakstri og akstri undir áhrifum, eins og svo er kallað, en til þess þarf aukið fjármagn í löggæslu. Allar þær krónur, frú forseti, sem settar eru í ofangreinda hluti sem ég hef verið að nefna borga sig margfalt til baka í færri slysum og þá sérstaklega í fækkun alvarlegra slysa. Alltaf er tilefni til að leitast við að tryggja sem öruggasta umferð á vegum landsins.