150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[14:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er pínulítið undarlegt því að hingað til höfum við getað verið með fyrirvara án þess að gera sérstaklega grein fyrir honum í nefndaráliti. Nú hefur verið hvatt til þess að fólk greini efnislega frá fyrirvara sem það er með. Hingað til hefur verið hægt að vera með fyrirvara og gera grein fyrir honum í ræðu sem kæmi væntanlega alveg því sama efnislega til skila. Það er í raun enginn munur á því að gera grein fyrir fyrirvara í ræðu og í riti en nú er búið að biðja okkur um að færa þetta í rit. Því verður fyrirvari að koma á efnislegan hátt fram í nefndaráliti af því það er nýja verklagið.

Mér finnst líka áhugavert að við erum hér að tala um áheyrnarfulltrúa því það er dálítið vandamál í þessu að það skipti einhverju máli að viðkomandi sé áheyrnarfulltrúi því hann á að vera með fullt málfrelsi samkvæmt starfsreglum fastanefnda (Forseti hringir.) og inni í því ætti að felast að mínu mati mun meira, réttur til að skila bæði áliti og gera bókanir o.s.frv., í raun allt nema greiða atkvæði.