150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegur forseti. Aðkoma Sjálfstæðisflokksins að þessu máli er mér ráðgáta. Reyndar er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í herðar niður í þessu máli eins og sést til að mynda af ummælum hv. þm. Sigríðar Á. Andersen í ræðu um þetta mál. Þar segir hún um hina svokölluðu borgarlínu, eins og hún kemst að orði, að hún sé algerlega óútfært fyrirbæri. Hún segir að eins og borgarlína er núna virðist ekkert vera hönd á festandi hvernig hún er. Hún segir sömuleiðis að gert sé ráð fyrir 50 milljörðum í þessa svokölluðu borgarlínu, eins og hún orðar það, en að látið sé hjá líða að huga að einföldum vegaframkvæmdum í Reykjavík sem eru hagkvæmar, skila árangri mjög fljótt og eru líka ódýrari. Undir þessi orð hv. þingmanns vil ég taka.

Af orðum hv. þingmanns sést að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er klofinn í þessu máli. Málsmetandi menn í Sjálfstæðisflokknum, til að mynda fyrrum formaður flokksins, forsætisráðherra og borgarstjóri, Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og Björn Bjarnason, fyrrum menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra, hafa lýst mjög eindregnum skoðunum í sömu veru Þeir sem sýnast styðja málið eru sveitarstjórnarmenn í nágrannasveitarfélögum á vegum Sjálfstæðisflokksins og forysta Sjálfstæðisflokksins, en þessi sama forysta ber ábyrgð á ríkisfjármálum og birtir þá ábyrgðarkennd sem hún hefur til að bera með því að standa að því að leggja eigi til þessa verkefnis, þar sem ekkert er hönd á festandi og er algjörlega óútfært, eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen segir, af opinberu fé úr ríkissjóði 50 milljarða. Og ekki bara það heldur á líka að selja hið dýrmæta Keldnaland. Svo hefur verið nefnt að selja Íslandsbanka inn í þessa hít, inn í þessa botnlausu hít. Það hlýtur því að vera afar sérkennilegt og einmanalegt fyrir til að mynda fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn að hafa ekki meiri stuðning af hálfu sinnar flokksforystu.

Í dag birtist mjög góð grein eftir oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn undir yfirskriftinni Óvissuferð þar sem hann fjallar um þessi mál. Hann segir þar að Reykjavík hafi setið eftir í samgöngumálum og að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi tafið úrbætur og þrengt að umferð í stað úrbóta. Hann segir umferðartafir hafi lengt vinnuvikuna í reynd. Hann segir að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn vilji flýta framkvæmdum og fara í snjallvæðingu umferðarljósa. Undir þessi markmið og úrræði vil ég taka, þau eru sjálfsögð. Oddvitinn Eyþór Arnalds segir að í stað þessa hafi meiri hlutinn boðar borgarlínu sem lausn fyrir allt og alla og hún eigi að kosta 70 milljarða en kannski þurfi að margfalda þá tölu með pí. Pí eins og menn þekkja er rúmlega þrír. Oddviti Sjálfstæðismanna er að geta sér þess til að þetta geti farið yfir 200 milljarða, vel yfir 200 milljarða því að síðasta kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 80 milljarða.

Herra forseti. Oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Eyþór Arnalds, ræðir sömuleiðis að Reykjavíkurborg sé að tvöfalda útgjöld sín til borgarlínu og þetta sé gert án þess að fjármögnun verkefnanna liggi fyrir og án þess að endanleg fjárfestingaráætlun sé til og án þess að rekstraráætlun sé gerð. Hann segir að fjármögnun borgarlínu í samgöngusáttmála sé ekki í hendi og veggjöld séu ekki á dagskrá. Það veit maður nú kannski ekki.

Herra forseti. Það væri vert að fjalla nánar um þessa ágætu grein Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Ég bið um að verða settur á mælendaskrá að nýju.