150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna það, ég held að ég hafi hlustað á 27. til þrítugustu og eitthvað ræðu hv. þingmanna Miðflokksins í gær í forsetastól. Það var bara fínt, það var gaman. Aldrei man ég til þess að þeir hafi talað um strætó á þann hátt sem ég nefndi hér. Þetta er hins vegar eitthvað sem ég tek eftir í samtölum við almenna borgara. Þetta eru vangaveltur mínar. Þetta er tilgáta um það hvaðan það kemur, þetta viðhorf um að strætó eigi alltaf að vera ókeypis. Það kemur mjög oft upp í umræðunni. Ef strætó væri bara ókeypis þá væri allt miklu betra. En það er ekki, held ég, vandamálið. Fólk er að reyna að leysa rangt vandamál þegar það fer inn á það að mínu mati. Kostnaðurinn er ekki vandamál. Leiðakerfið er eiginlega eilífðarvandamál og samgöngur almennt, það þarf alltaf að leysa eitthvað því hlutirnir breytast og þróast með tímanum.

Hvað varðar kostnaðinn hef ég ekki þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur. Það er farið aðeins yfir þetta í greinargerð frumvarpsins sem við ræðum hér og það eru til fleiri gögn líka frá Reykjavíkurborg, ógrynni af gögnum reyndar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sökkt mér í þau af neinni dýpt en ég sé ekki hvers vegna þetta verkefni ætti að vera öðruvísi en önnur stór langtímasamgönguverkefni sem spanna kannski 15 ára tímabil. Kostnaður getur alveg farið fram úr áætlunum og það virðist reyndar vera reglan frekar en undantekningin ef eitthvað er. Það er beinlínis gert ráð fyrir því að farið sé fram úr þeim. Það er ekki nýtt vandamál og ekkert sérstakt við borgarlínu. Ef hv. þingmaður er með einhverjar hugmyndir um hvernig sé hægt að eiga við það vandamál almennt þá skal ég glaður sökkva mér í einhverjar tölur en ég hef enga ástæðu heyrt enn þá, með fyrirvara um að ég hef ekki hlustað á kannski 40 ræður hvers þingmanns Miðflokksins um þetta enn sem komið er. Ég átta mig ekki á því hvernig þetta ætti að vera meira vandamál við borgarlínu. Auðvitað verður alltaf viðhaldskostnaður. Auðvitað þarf að uppfæra hlutina með tímanum. (Forseti hringir.)

Það væri hægt að spyrja sömu spurningar um núverandi kerfi. Munum við ekki alltaf þurfa að borga fyrir núverandi kerfi? Að sjálfsögðu.