150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst af áhuga með áhyggjum hv. þingmanns af lýðræðinu við hin ýmsu tilefni í hinum ýmsum málum og auðvitað bregst það ekki að hv. þingmaður viðraði þær áhyggjur. Þær eru í stuttu máli, ef ég skil rétt, hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer rangt með, að stjórnmálamenn ráði ekki nógu miklu.

Í upphafi ræðu sinnar fór hv. þingmaður aðeins yfir ríkið í ríkinu, eins og hann kallaði það. Það myndi vera fólk að stjórna hlutum, taka ákvarðanir, gera greiningar og alls konar hluti, sem væri ekki kosið. Ég velti þá fyrir mér hvort það sé þá ekki bara kjörið að leggja fram tillögu um að þetta fólk verði kosið. Hvað finnst hv. þingmanni um það? Telur hv. þingmaður að borgararnir myndu vilja kjósa fólk til þess að fara með þetta vald sem verður í þessu nýja batteríi? Ef svo er, er þá ekki kjörið að leggja það bara til? Það væri ágætt og kannski svolítið áhugavert að sjá hvað íslenskir kjósendur myndu bralla með þann rétt að geta kosið fólk til tiltekinna verka. Við kjósum fólk yfirleitt til almennra verka á Alþingi sem sinnir öllu og kýs óbeint ríkisstjórn sem sinnir öllu. Þannig að það gæti verið áhugaverð pæling. Ég hef ekki heyrt ákall um þetta annars staðar frá, verð ég að viðurkenna, hvorki frá mínum flokksfélögum né almenningi en ef það er ákall um að borgarinn hafi meira að segja um einstakar ákvarðanir eða vilji kjósa fólk til þess að sinna tilteknum hlutverkum, er þá ekki kjörið að rannsaka leiðir til þess að fara í þá átt? Og ef borgarinn hefur ekki áhuga á þessu segir það ekki svolítið að þessar áhyggjur hv. þingmanns séu kannski ekki á jafn góðum rökum reistar og hann myndi vilja?