150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er ekki sammála hv. þingmanni um að ekki sé verið að renna blint í sjóinn með þennan samgöngumáta vegna þess að við eigum að horfa til reynslunnar og hún er ekki góð hvað það varðar að fá fólk til að nýta þennan samgöngumáta. Að ætla sér að þrefalda þann fjölda held ég að sé mjög mikil bjartsýni í verkefni sem kostar gríðarlega fjármuni.

Hv. þingmaður talar svolítið um umhverfisþáttinn í þessu. Það er hægt að greiða fyrir umferð í Reykjavíkurborg með miklu minni tilkostnaði, t.d. með byggingu mislægra gatnamóta. Tafir eru náttúrlega ekki umhverfisvænar, við vitum það, en ef hægt væri að leysa það með minni tilkostnaði þá hugnast mér það mun betur.

Hv. þingmaður talaði síðan um lífsgæðin, um göngustígana og allt það. Við í Miðflokknum fögnum því. Við fögnum áherslu á hjólreiðastíga og göngustíga, á ljósastýringarkerfið o.s.frv. Þetta eru allt saman mjög mikilvæg verkefni. En ég vil líka hvetja hv. þingmann til að kynna sér það að meðfram þessari línu á að vera íbúabyggð sem er þá væntanlega hugsuð þannig að stutt sé að fara til að nýta sér þennan samgöngumáta. Hefur hv. þingmaður t.d. kynnt sér mjög athyglisverðar skoðanir eins af okkar þekktustu skipulagsfræðingum, Trausta Valssonar? Hann hefur haft miklar efasemdir gagnvart þessum hluta, þ.e. byggðinni við hliðina á línunni, að hún sé óaðlaðandi og ekki í þeim stíl sem við erum að sækjast eftir hvað varðar vistvæna og áhugaverða byggð. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það einnig. Það eru margar hliðar á þessu, hv. þingmaður.