150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er nákvæmlega þess vegna sem ég nota orðið freistnivandi, af því að ég vil ekki persónugera þetta. Ég vil ekki segja þessi eða þessi ráðherra sérstaklega, nema ég hafi mjög sterkar sannanir fyrir því að hann muni misbeita valdi eða beita almannavaldi í þágu sérhagsmuna. Það er grundvallarskilgreiningin á spillingu af því að við erum búin að búa til þessa ríkisheild til þess að passa upp á ákveðna heildarhagsmuni. Í bandarísku stjórnarskránni er það orðað þannig að þetta sé líf, frelsi og leit að hamingjunni. Það er einhver ákveðinn tilgangur með því að við setjum á fót svona stofnun sem er ríkið og það er til þess að vinna að almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum. En það er freistnivandinn og hann hefur í rauninni að einhverju leyti verið viðskiptamódel stjórnmálanna í mjög langan tíma í fulltrúalýðræðissamfélagi. (Forseti hringir.) Það er vandamál ef menn fara að beita almannavaldi í þágu sérhagsmuna sem síðan aðstoða við atkvæðaveiðar. Þetta er grunnvandinn (Forseti hringir.) í stjórnmálum samtímans. Þess vegna er svo mikilvægt einmitt að skjóta loku fyrir freistnivandann. (Forseti hringir.) Hérna á þessum forsendum er það gert með því að tryggja að á sama tíma séu miklu faglegri sjónarmið varðandi vinnslu málsins, (Forseti hringir.) vinnslu og úthlutun á almannafé.

(Forseti (HHG): Forseti minnir hv. þingmenn á ræðutímann.)