150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

um fundarstjórn.

[13:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Nú berast fregnir af því að forseti hafi áhuga á að halda þingfundi eftir helgi, á mánudegi og jafnvel þriðjudegi. Þess vegna tel ég ástæðu til að minna á að 2. júní var undirritaður samningur, skriflegur samningur allra formanna flokka hér á Alþingi, um að þing stæði til 25. júní u.þ.b. Ástæðan fyrir því að orðunum „um það bil“ var bætt þarna við var sú að vonir stóðu til að jafnvel yrði hægt að ljúka því fyrr. Engum datt í hug að farið yrði með þing fram að forsetakosningum eða fram yfir þær. Því spyr ég hæstv. forseta hvort ekki standi til að standa við skriflegan samning allra formanna flokka hér á Alþingi frá 2. júní. Ég geri mér grein fyrir því að ríkisstjórnin myndi vilja klára miklu fleiri mál en (Forseti hringir.) allar ríkisstjórnir langar að klára fleiri mál en tími vinnst til, og nú erum við komin lengra með þetta þing en nokkur dæmi eru um.