150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og að fara yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í þremur fjáraukalagafrumvörpum. Hér er til umfjöllunar síðasta frumvarpið í bili a.m.k. en hv. þingmaður boðaði viðbótaraðgerðir á haustmánuðum. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni höfum við í Miðflokknum stutt þessar aðgerðir og lagt okkur fram um að koma með tillögur þannig að með því að styðja þessar aðgerðir tel ég þær að sjálfsögðu vera jákvæðar og til þess fallnar að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir.

Ég gagnrýni það hins vegar, og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér í þeim efnum, að mikilvægar aðgerðir eins og stuðningslánin, sérstaklega stuðningslánin, hafa bara komið allt of seint til framkvæmda. Fyrir því liggja ekki haldbærar skýringar að mínu mati. Þessar aðgerðir eru gríðarlega mikilvægar, sérstaklega fyrir minni og meðalstór fyrirtæki, því að hver dagur er mjög erfiður í rekstri þegar engar tekjur koma inn og standa þarf við skuldbindingar. Ég veit til þess að fjármálastofnanir hafa haldið að sér höndum og hafa ekki viljað veita t.d. yfirdráttarlán til þessara fyrirtækja svo að þau geti staðið við skuldbindingar sínar. Svarið er einfaldlega að það sé verið að bíða eftir stuðningslánum. Hér er því vandamál sem verður að leysa. Þetta hefur haft þau áhrif að fyrirtæki hafa því miður lagt upp laupana á þessum síðustu metrum vegna þess að þau hafa ekki getað beðið. Ég held að hv. þingmaður sé sammála mér í því að á þessu verður að gera bragarbót og það strax og fá betri skýringar á því hvers vegna þetta hefur gengið svona hægt fyrir sig.