150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

714. mál
[01:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Frumvarpið eins og það kom frá ráðherra segir að ekki sé lengur skylda að skera í eyrun á milljón lömbum á ári. Framsögumaður málsins, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, tók vel á þessu og vildi halda þessu inni. Það kom miðlunartillaga um að enn þá væri skylda að gera það en menn gætu sótt um að þurfa ekki að skera lömbin sín. Þessu hafnaði meiri hlutinn í nefndinni. Þessu höfnuðu þingmenn Vinstri grænna. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir höfnuðu þessum tillögum og maður spyr sig: Hvers vegna? Jú, það er vegna hefðarinnar. Það er vegna þess að rétt eins og að samkvæmt trúarhefð er hægt að vera með illa meðferð á dýrum er þetta einhver hefð sem menn vilja halda í hér. Yfirdýralæknir segir að þetta sé ónauðsynlegt. Yfirdýralæknir segir að þetta meiði lömbin en samt vilja Vinstri græn halda í þetta. (Forseti hringir.) Dýraverndarsamband Íslands lagðist gegn þessu, yfirdýralæknir lagðist gegn þessu. (Forseti hringir.) Grænkerar á Íslandi (Forseti hringir.) sem hugsa um dýravelferð lögðust gegn þessu. (Forseti hringir.) Vinstri grænir kröfðust þess að þeir mættu skera lömbin.