150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[01:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Í stjórnarsáttmálanum segir: „Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna.“ Það sama segir í stefnu Vinstri grænna. Það er það sem þetta frumvarp gerir, að snúa af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna þannig að þingmenn Vinstri grænna geta samþykkt þetta, ef þeir fylgja sannfæringu sinni, og ég trúi ekki öðru en að það sé sannfæring þingmanna Vinstri grænna eða voru þeir kannski ekki að segja sínum kjósendum rétt og satt frá um sína stefnu? Voru þeir ekki að segja flokksráði sínu satt, sem samþykkti þennan stjórnarsáttmála og að fara þessa leið? Þið hafið dauðafæri núna með því að samþykkja þetta hér. Þá gerum við það, þá snúum við af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna. Fólk sem er það óheppið að vera háð fíkniefnum — við hættum að refsa því strax í kvöld, strax á eftir.

Sjálfstæðisflokkurinn er líka með stefnu sem er búin að vera frá a.m.k. 2015, á hverju landsþingi. Þar segir, með leyfi forseta: „Líta þarf á fíkn sem heilbrigðisvanda en ekki löggæsluvanda.“ Þetta er í boði núna, þið eruð í dauðafæri.