150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir andsvarið og fyrir að benda á þá hluti sem ég kom inn á í ræðu minni, að við þurfum við að sjálfsögðu að fara vandlega yfir þetta í störfum nefndarinnar. Það verður mjög áhugavert að fá umsagnir þeirra aðila sem munu segja álit sitt á stefnunni. Það er í grunninn sömu aðilar og settu fram athugasemdir í fyrri stefnu. Það er alltaf mjög gagnlegt í þessu starfi og okkur mjög mikilvægt í nefndinni. Þá nefndi ég sérstaklega fjármálaráð. Það skiptir verulega miklu máli að fá að heyra álit þeirra á því sem er sett hér fram. Vonandi fáum við þá skýringar á því sem mér hefur ekki þótt vera nægilega skýrt í því sem er sett fram núna. Hlutirnir eru svolítið almennt orðaðir, eins og ég nefndi, og ég legg áherslu á að við fáum góðan tíma í þá vinnu sem fram undan er og getum nýtt hann vel. Auðvitað eru svolítið sérstakar aðstæður núna, fundir fjárlaganefndar, fjarfundir o.s.frv., þannig að það er mikilvægt að við náum að koma öllum sjónarmiðum okkar á framfæri. Það verður ánægjulegt að heyra umsögn þeirra aðila sem vel til þekkja. Það er okkar að sjá og samþykkja það, eins og kemur fram í lokaorðum greinargerðarinnar, að þetta standist lög um opinber fjármál og þau viðmið sem þar eru lögð til grundvallar. Við getum þá borið þau skilaboð hingað í þingsal að svo sé. Og ef svo er ekki þarf náttúrlega að betrumbæta það og í því felst vinna okkar innan nefndarinnar.