150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[15:16]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir spurningarnar. Ég byrjaði á að skrifa þær samviskusamlega niður en svo áttaði ég mig á því að þær voru of margar og of stórar til að ég gæti nokkurn tíma svarað þeim, alla vega ekki þannig að það yrði mjög ærlegt svar. Mig langar samt að halda mig við óvissusvigrúmið því að það er fyrirkomulag sem við breyttum hér við síðustu endurskoðun. Þar vorum við þó að kljást við breyttar forsendur á miklu minni skala. Umræðan þá stóð um það hvort forsendur væru virkilega það mikið breyttar að 10. gr. heimilaði það hreinlega að við stæðum í þeim sporum að breyta. Þá settum við inn 0,8% óvissusvigrúm og vorum í raun að fylgja ráðleggingum fjármálaráðs. Það hefur alltaf sagt að við höfum verið að rembast við einhver töluleg markmið og sett okkur í spennitreyju. Þegar við höfum viljað bregðast við þróuninni í hagkerfinu höfum við kannski verið búin að spenna okkur svo niður að við höfum hreinlega bara ekki getað það, kannski ekki farið í það sem er skynsamlegt til að bregðast við sveiflunni.

Við þessar kringumstæður segjum við öll: Við þurfum að verja störfin, við þurfum að skapa störf, við þurfum að viðhalda opinberu þjónustunni. Við þurfum að verja velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið og við þurfum að mæta þeim kostnaði sem Covid felur í sér. Það er mikil óvissa og þá megum við ekki negla okkur svo niður að við getum ekki mætt henni. Þess vegna verðum við að hafa óvissusvigrúm. Það getur hins vegar ekki verið endalaust, það er takmörkunum háð, upp á trúverðugleika. (Forseti hringir.) Það verður að vera samhengi á milli óvissusvigrúms, skuldasöfnunar sem tekur þá mið af sjálfbærni, grunngildamiðaðri stefnumörkun. (Forseti hringir.) Það er kannski verkefnið okkar að átta okkur á því hvernig samhengið þarna á milli þarf að vera. (Forseti hringir.) Hér erum við með einhverjar tölur á blaði og greinargerð úr ráðuneytinu en við í þinginu og í fjárlaganefnd þurfum að spyrja þessara spurninga og fara yfir þetta. Það var kannski kjarninn í ræðu minni.

(Forseti (ÞorS): Forseti verður að minna hv. þingmenn á tímamörk, tvær mínútur eru til umráða.)