150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að kvarta undan ákvarðanaleysi í þessari ríkisstjórn, ég er bara að kvarta undan því og ítreka það við hæstv. fjármálaráðherra að það megi upplýsa almenning og okkur hér á þinginu betur. Ég held að með því fáist meiri samstaða, dýrmæt samstaða sem er mikilvæg til að byggja áfram upp kröftugt og öflugt atvinnulíf. Ég ítreka spurningu mína: Hvernig á að tryggja að lánalínan sé ekki nýtt í annan rekstur en flugreksturinn, hún sé ekki nýtt í samkeppnisrekstur innan samstæðunnar?

Í öðru lagi vil ég spyrja: Af hverju er ekki verið að nota lög um ríkisábyrgðir? Síðast þegar við vorum með ríkisábyrgð og hún var undanþegin 2. og 3. gr. laga um ríkisábyrgðir minnir mig að það hafi verið vegna Vaðlaheiðarganga. Við vitum hvernig það fór. Ég held að ákveðið aðhald felist í lögum um ríkisábyrgðir. Það hentar ekki að segja að lögin passi ekki, ég held miklu fremur að formreglur þar séu skýrar og undirstriki ákveðinn öryggisventil fyrir ríkið. Auðvitað verður farið yfir það en ég geld varhuga (Forseti hringir.) við því að verið sé að víkja frá reglum og kröfum í lögum um ríkisábyrgðir.