150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst alveg gríðarlega mikilvægt að halda því til haga að hér erum við að tala um að verið sé að setja sérsniðin skilyrði fyrir því að veita ríkisábyrgð. Það hlýtur að skipta gríðarlega miklu máli þegar verið er að veita ríkisábyrgð vegna aðstæðna og til félags sem almennt séð fær ekki ríkisábyrgð hjá ríkinu. Við erum ekki að tala um einstök verkefni eða nýframkvæmdir. Þess vegna verð ég að segja það hér að ég tel að það skipti ofboðslega miklu máli að þetta hafi verið skrifað nákvæmlega inn í skilmálana þar sem meira að segja er talað um hvernig vaxtaálag breytist eftir því hvernig dregið er á lánalínurnar. Það hlýtur að skipta ríkið máli að það sé sniðið að framkvæmdinni á ríkisábyrgðinni hvernig þarf að greiða hana til baka. Ef það þýðir að hinar almennu reglur eigi ekki við myndi ég halda að meira hald væri í því að hafa sérsniðnar aðgerðir og áætlanir sem byggja á þessari tilteknu ríkisábyrgð en ekki það sem almennt gildir um aðrar framkvæmdir.