150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi tekið eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í framsöguræðu sinni varðandi ríkisábyrgðir því að það var dálítið merkilegt. Þar kvartar hæstv. fjármálaráðherra yfir því hversu erfitt eða ómögulegt er að fylgja lögum um ríkisábyrgðir. Það er eitthvað sem framkvæmdarvaldið á að gera. Við setjum því lög til að framfylgja en þeim var skóflað til hliðar með þeim rökum að þau ættu ekki við í þessum aðstæðum og hefðu verið sett um allt annað fyrirkomulag og þar fram eftir götunum.

Örstuttu síðar talaði hæstv. ráðherra um að ýmsar greiningar, sem kveður á um í lögum um ríkisábyrgð, hafi verið gerðar í samstarfi við Deloitte o.s.frv. Hvað þýðir það í þessari skiptingu valdsins á milli löggjafar- og fjárveitingavalds sem alla jafna ættu að fá þessar greiningar frá Ríkisábyrgðasjóði, opinberum aðila sem ber ákveðna ábyrgð á rökstuðningi, aðgengi upplýsinga og þess háttar, og síðan framkvæmdarvaldsins sem leitar til utanaðkomandi aðila, einkafyrirtækis, til að vinna sömu greiningar og kveðið er á um í lögunum og kvartar svo undan að það hefði verið tvíverknaður að vinna þessar sömu greiningar aftur hjá Ríkisábyrgðasjóði en það hafi samt verið svo erfitt að gera það í fyrsta sinn?

Hefði ekki verið hægt að vinna þær bara einu sinni, einfaldlega með því að láta rétta aðilann gera það Ríkisábyrgðasjóð, samkvæmt lögunum sem við setjum framkvæmdarvaldinu til að fylgja eftir? Við erum í svo sturluðu umhverfi þar sem framkvæmdarvaldið, sem á að vinna eftir lögum, ákveður bara: Nei, við ætlum ekki að vinna eftir þessum lögum. Það er óþægilegt. Hendum þeim til hliðar og leggjum til að þetta eigi ekki við í þessu tilviki. Það er svo óhentugt. En (Forseti hringir.) gerum samt það sem lögin segja með einhverjum öðrum aðilum sem þingið hefur ekki jafn góðan (Forseti hringir.) aðgang að.