150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var mjög áhugavert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um kerfislega mikilvæg fyrirtæki og kerfislega mikilvæga þjónustu. Við höfum talað um lög um ríkisábyrgðir og hversu úreld þau virðast vera og þetta vakti hjá mér spurningar. Ég afsaka smáútúrdúr en þetta skiptir máli varðandi Icelandair og fleiri fyrirtæki í þessari stöðu. Við erum tiltölulega nýbúin að gera breytingar á póstlögum varðandi Íslandspóst og það er ákveðin kerfislega mikilvæg þjónusta. Þar útveguðum við ákveðna alþjónustukvöð sem leysir það vandamál hvernig kerfislega mikilvæg þjónusta er veitt og hvernig að henni er staðið o.s.frv. Þessi samanburður kemur upp í hugann á mér vegna þess að hérna erum við með kerfislega mikilvæga þjónustu, það er enginn vafi um það, og við lendum í því að þetta er kerfislega mikilvægt fyrirtæki sem veitir þjónustu. Er þá ekki eitthvað úrelt í samkeppnislögum okkar eða svokölluðum „antitrust“-lögum eins og fóru í gegn í Bandaríkjunum fyrir nokkrum áratugum síðan þar sem var gerð mikil uppstokkun til þess að vernda samkeppnisstöðu og hindra einokun? Við erum alltaf í þessari togstreitu milli stærðarhagkvæmni sem veldur ákveðinni einokun sem eyðileggur markaðinn og reynum þá að draga það til baka, frá stærðarhagkvæmninni o.s.frv. Ef við lendum í því að kerfislega mikilvæg þjónusta er komin undir kerfislega mikilvæg fyrirtæki, er þá ekki eitthvað að samkeppnislögunum?