150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem ég var einfaldlega að benda á er að það er mjög nauðsynlegt að fullkomið gagnsæi ríki þegar við förum yfir þær tölur. Hér eru settar fram prósentutölur þegar rætt er um að óvissusvigrúm sé 2% árið 2020, síðan er það 3% 2021 og 3% 2022. En á bak við þær prósentutölur eru gríðarlega háar upphæðir eins og ég nefndi áðan. 2021, sem er bara á næsta ári, þá erum við að tala um 93 milljarða kr. Þetta er kosningaár og ef við náum okkur fyrr af stað í veirufaraldrinum, sem við gerum vonandi, þá kemur þarna ákveðinn freistnivandi. Um það hefur fjármálaráð rætt, að ríkisstjórnin freistist einfaldlega til þess að nýta það svigrúm sem hún hefur, upp á þessa háu upphæð, í einhver verkefni sem tengjast ekki veirufaraldrinum. Það er eitthvað sem er afar mikilvægt að passa vel upp á og kom mjög skýrt fram hjá fjármálaráði sem er okkar helsti ráðgjafi eða álitsgjafi hvað þessa stefnu varðar. Þannig að þegar er verið að greina frá því að hér sé verið að tala um halla til tveggja ára upp á rúma 500 milljarða, þá á náttúrlega að greina frá því hver talan er allt tímabilið, þ.e. sem stefnan gengur út á, hún er til 2022 og þá erum við að tala um nálægt því 1.200 milljarða eins og ég nefndi.

Hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, hefur unnið mjög gott starf í nefndinni og ég vil nota tækifærið og þakka honum fyrir það. Það hefur verið mikið álag á nefndinni undanfarna daga og þessu hefur verið vel stýrt, mér finnst rétt að halda því til haga. En hérna finnst manni eins og í raun og veru sé verið að fela raunverulega stöðu því að hún er alvarleg. Og þó svo að fjármálaráð hafi sagt að við munum (Forseti hringir.) ráða við þetta og þetta sé sjálfbært þá má lítið út af bregða. Ég held að hv. þingmaður sé sammála mér hvað það varðar.