150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það er þetta með óvissusvigrúmið. Nú held ég að ég fari ekki rangt með að m.a. sé bent á það í umsögn fjármálaráðs að við þessar aðstæður sé skynsamlegt að hafa mjög rúmt óvissusvigrúm. Að sama skapi segir þar að það megi ekki vera allt of mikið svo að það sé ekki marklaust. Einhvers staðar þarna þarf því að finna jafnvægi. Auðvitað vonum við öll að betur gangi en spáð er, og raunar eru sumar spár ekki biksvartar að því leyti til að menn eru á því að ástandið gangi til þess að gera hratt yfir. En þá er mikill freistnivandi til staðar, sjálfsagt fyrir hvern sem er, að grípa til óvissusvigrúmsins og segja: Heyrðu, ég er að gera þetta og þetta og það rúmast innan óvissusvigrúmsins. Fjármálaráð bendir á að jafnvel eigi að draga úr áformunum ef vel gengur. Þetta er vandmeðfarið.

Ég held engu að síður varðandi framhleðsluna að við hljótum að geta stillt þessu upp þannig að hægt sé að hlaða þessu framar. Ef það er ekki hægt (Forseti hringir.) til að bregðast við svona óvæntum aðstæðum spyr maður sig hvort þetta þjóni þá einhverjum tilgangi, þ.e. ef við teljum að bestur árangur náist með framhleðslunni og það er ekki hægt eða má ekki.