150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, frá 4. minni hluta fjárlaganefndar, eða Ingu Sæland, sem er nefndarmaður Flokks fólksins í fjárlaganefnd.

Ástandið sem nú ríkir í heiminum er fordæmalaust. Covid-19 hefur leitt til ómældra hörmunga og enn er langt í land í baráttunni við veiruna er veldur sjúkdómum. Efnahagslegar afleiðingar faraldursins hafa leitt til þess að nauðsynlegt er að endurskoða gildandi fjármálastefnu. Alger samdráttur í ferðaþjónustu og stóraukið atvinnuleysi hefur umsvifalaust haft gífurleg áhrif á bæði tekju- og útgjaldalhlið ríkissjóðs. Auk þess fara nauðsynlegar sértækar aðgerðir stjórnvalda langt fram úr viðmiðum fyrri fjármálastefnu.

Það er miður að ekki skyldi takast í upphafi kjörtímabilsins að móta fjármálastefnu sé héldi vatni. Staðreyndin er sú að forsendur hennar voru brostnar áður en hún kom úr prentaranum, eins og allir vita. Fjármálastefna sú virkaði fremur sem vinsældarauglýsing ríkisstjórnarinnar en raunhæf áætlun um afkomu ríkissjóðs. Með henni var ríkissjóði sniðinn svo þröngur stakkur að hún þurfti nánast strax endurskoðunar við. Reyndist sú endurskoðun nauðsynleg án þess að hagspár hefðu, að mati fjármálaráðs, breyst svo verulega að það gæfi undir eðlilegum kringumstæðum tilefni til slíks. Í kjölfar þeirrar endurskoðunar var gripið til þess að auka óvissusvigrúm stefnunnar til að gefa ríkissjóði tækifæri til að bregðast við óvæntum skakkaföllum. Svigrúmið var þó ekki hugsað sem svo að það dygði til að takast á við mestu efnahagslægð á landinu frá upphafi mælinga. Því reyndist nauðsynlegt að endurskoða stefnuna enn á ný.

Þær hagspár sem endurskoðuð stefna tekur mið af draga upp svarta mynd af ástandinu. Hagstofan spáir 8,2% samdrætti á yfirstandandi ári og 8,1% atvinnuleysi. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir minni samdrætti á þessu ári en gerir hins vegar ráð fyrir minni hagvexti á því næsta. Það er því ljóst að efnahagslegt áfall þjóðarinnar er gífurlegt. Vonin er þó að við getum unnið okkur til baka á sem skemmstum tíma en líklega verður kreppan ekki eins skammvinn og vonir stóðu til í upphafi faraldurs.

Það er margt ágætt sem kemur fram í endurskoðaðri stefnu. Það að notuð hafi verið hin svokallaða dekkri sviðsmynd við gerð hennar dregur úr hættu á því að endurskoðuð stefna bresti enn á ný. Til að fjármálastefnan geti rúmað hina dekkri sviðsmynd er óvissusvigrúmið aukið til muna, eða úr 0,8% í 2% árið 2020 og 3% árin 2021 og 2022. Það er gott að sjá að ríkisstjórnin hyggst bregðast við með því að auka skuldir ríkissjóðs í stað þess að skera niður opinbera þjónustu. Eðlilega er áhyggjuefni að fjármálastefnan geri ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs aukist um allt að 850 millj. kr. á þriggja ára tímabili en það verður að teljast illskárri kostur en að grípa til kerfislægs niðurskurðar eða stóraukinnar skattheimtu. Þá er það jákvætt að gert er ráð fyrir auknum framkvæmdum hins opinbera í endurskoðaðri stefnu. Á tímum samdráttar er nauðsynlegt að hið opinbera ráðist í atvinnuskapandi aðgerðir sem geti jafnframt skilað samfélaginu ábata til lengri tíma, svo sem með auknum fjárfestingum í innviðum.

Skýra hefði þurft frekar hvernig skuli bregðast við ef samdráttur verður minni en spár gerðu ráð fyrir. Í ljósi þess að fram undan er kosningavetur er hætta á að til verði ákveðinn freistnivandi hjá fráfarandi ríkisstjórn til að eyða umfram nauðsyn til að auka eigin vinsældir. Fjármálaráð bendir á í umsögn sinni að hætta sé á að lausung skapist í fjármálastjórn verði áfallið minna. Það má taka undir þessar ábendingar. Framsetning fjármálastefnu hefur undanfarin ár borið það með sér að segja sem minnst í stefnunni sjálfri svo að hún skuldbindi ríkisstjórnina ekki um of. Það getur grafið undan stöðugleika í fjármálastjórnun ef hún hefur einungis það gildi að móta ytri mörk fyrir ríkissjóð. Stefnan á einnig að taka á því sem gerist ef fjármál ríkisins batna til muna. Þá er það áhyggjuefni hve oft þarf að endurskoða fjármálastefnuna svo skömmu eftir innleiðingu nýrra laga um opinber fjármál og varast ber að gera slíkt að fordæmi fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar.

Það er ámælisvert að ekki sé fallið frá aðhaldskröfu fyrri stefnu gagnvart þeim ríkisstofnunum sem glíma við stóraukið álag á tímum Covid-19 og standa vörð um velferð borgaranna. Í gildandi fjármálastefnu er gert ráð fyrir 0,5% aðhaldskröfu á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla á árunum 2020–2022. Það er augljóst að umsvif hjá þessum stofnunum hafa stóraukist og verkefnin orðin flóknari vegna áhrifa faraldursins. Á tímum sem þessum er ekki rétt að fylgja eftir aðhaldskröfu upp á tugi milljarða króna. Áform ríkisstjórnarinnar um allt að 57,7 milljarða kr. á gildistíma fjármálaáætlunar byggist á þegar brostnum forsendum og verður að endurskoða í ljósi aðstæðna, ekki síður en annað. Þrátt fyrir þetta er áréttað í greinargerð með endurskoðaðri fjármálastefnu að ekki skuli fallið frá þeirri ákveðnu aðhaldskröfu. Þvert á móti er boðað að auka þurfi aðhaldsstig opinberra fjármála á síðari hluta gildistíma næstu fjármálaáætlunar.

Þrátt fyrir margvíslegar og umfangsmiklar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru tugir þúsunda einstaklinga í samfélaginu sem tilheyra minnihlutahópum og fá litla eða enga viðbótaraðstoð í þessu ófremdarástandi. Þessir hópar hafa staðið óbættir hjá garði um langt árabil og kinnroðalaust ætlar ríkisstjórnin að viðhalda þeirri skömm. Hópar eins og öryrkjar, eldri borgarar og atvinnulausir bíða vondaufir aðgerða í sína þágu sem engar eiga að vera. Lengi hafa almannatryggingaþegar sem enga framfærslu hafa aðra en frá Tryggingastofnun mátt hlusta á innantóm orð um leiðrétt og bætt kjör. Því er það svo að stórir hópar í samfélaginu bjuggu við sárafátækt áður en þeir þurftu að horfast í augu við enn lakari afkomu vegna áhrifa heimsfaraldurs. Grunnlífeyrir almannatrygginga og atvinnuleysisbóta dugar engan veginn fyrir framfærslu. Nú þegar hafa þúsundir manna fest í fátæktargildru og hættan er sú að þar eigi einnig eftir að festast þeir sem vegna ástandsins missa vinnuna til lengri tíma.

Í endurskoðaðri fjármálastefnu er tíundað að eitt helsta mótvægi opinberra fjármála við ágjöfinni í hagkerfinu sé að ekki hafi verið dregið úr umfangi tilfærslukerfa. Ef eitthvað er að marka þetta ætti einungis að vera jákvætt að hækka enn frekar grunnframfærslu þeirra sem byggja afkomu sína á tilfærslukerfunum. Engu að síður er boðað í greinargerð með endurskoðaðri fjármálastefnu að varðveita skuli kerfið í núverandi mynd. Þegar við höfnum því að rétta hjálparhönd þeim sem eru hjálparþurfi er í raun verið að auka enn frekar á þjáningar þeirra. Velferð er ekki einungis mæld í hagtölum, aurum og krónum heldur í afkomu heildarinnar.

Út frá þessu vil ég ítreka að staðan er óbærileg fyrir stóran hóp fólks. Við erum með nálægt 10.000 börn í fátækt. Við erum með fólk í sárafátækt, öryrkja og eldri borgara. Við erum að horfa upp á 40–200% aukningu í aðsókn hjá hjálparsamtökum. Við erum með listamenn sem hafa engar tekjur og hafa ekki haft í mánuði. Við erum með stúdenta sem hafa borgað af launum sínum í Atvinnuleysistryggingasjóð en fái ekki atvinnuleysisbætur. Á sama tíma og þetta gengur yfir eru Norðmenn að selja aðgang að laxeldi fyrir tugi milljarða. Ef við værum að gera eins værum við að fá 30–40 milljarða inn í okkar kerfi sem væri hægt að nota til að bæta stöðu þessara hópa. Nei, það er ekki gert. Og við vitum hvað varð um bankaskattinn. Á sama tíma og allt þetta er í gangi erum við að fara að samþykkja 15 milljarða lán til Icelandair. En ekkert er verið að gera fyrir þá sem helst þurfa á því að halda, þá sem eru verst staddir meðal eldri borgara og öryrkja og þá sem eru á félagslegum bótum. Biðlistar í heilbrigðiskerfinu lengjast. Það er ömurlegt til þess að hugsa að þarna úti sé stór hópur sem sér ekki fram á annað en að verða að bíða, ekki í mánuði, ekki í ár heldur í þrjú til fimm ár. Þeir sem höfðu þó alla vega þann möguleika að fara til útlanda í aðgerðir geta það ekki í þessu ástandi. Það er girt fyrir það. Þeir sem efni hafa á geta hins vegar keypt sér þjónustuna. Það er ömurlegt til þess að vita að við séum komin með þannig kerfi að þeir sem hafa efni á aðgerðum komast í þær en þeir sem ekki hafa efni á þeim verða bara að vera á biðlista. Hjúkrunarheimilin eru fjársvelt. Hvert sveitarfélag af öðru er að segja upp samningum við hjúkrunarheimilin. Hvar er það í stefnunni? Ég vona heitt og innilega að verið sé að vinna að því að standa við það sem hefur verið sagt hvað eftir annað, að öldruðum sé búið áhyggjulaust ævikvöld. Hugsið ykkur að það er jafnvel talað um 850 milljarða halla á ríkissjóði á næstu þremur árum. Hve mikið af því er eyrnamerkt heilbrigðiskerfinu eða til að útrýma fátækt og sárafátækt, biðlistum, kannski bara biðlistum barna eftir þjónustu? Því miður er það ekki í forgangi.

Ríkisbáknið hefur þanist út. Í þessu ástandi ber okkur skylda til að velta við hverjum einasta steini til að finna aur sem er notaður í óþarfa. Okkur ber skylda til að reyna að finna fjármuni hvar sem þá er að finna til að sjá til þess að þeir sem verst hafa það þurfi ekki að herða sultarólina. Það er svolítið undarlegt að við skulum t.d. ekki hafa gripið til þeirra ráða, sem á var bent, að stórauka framlög til kvikmyndaiðnaðarins. Þar eru gífurleg tækifæri, gífurlegir fjármunir og þar er vöntun, eins og við vitum í dag. Þar höfum stórkostleg tækifæri til að grípa inn í. Hvaða áhrif hefur það? Það hefur áhrif á allt listalíf hjá okkur vegna þess að við erum með stóran hóp listamanna sem getur ekki framfleytt sér, fær engar tekjur og fær ekki einu sinni atvinnuleysisbætur. Það er óþolandi. Hvernig í ósköpunum gátum við byggt kerfið svona upp og hvernig í ósköpunum ætlum við að láta það viðgangast áfram?

Síðan er eitt sem við eigum að stefna að og það er að verða sjálfbær með grænmetisframleiðslu, að stórauka gróðurhúsaframleiðslu eins og við sjáum að er að gerast í Reykholti á Suðurlandi. Þar er verið að byggja. Þar eru virkilegar framsýnir menn að byggja stórkostleg gróðurhús. Við eigum að byggja undir og hvetja til slíks. Það segir sig sjálft að ef við verðum sjálfbær með grænmeti stöndum við rosa vel. Það hlýtur að segja sig sjálft að við með okkar rafmagn og hreina vatn hljótum að geta gert það alveg eins og Holland sem hefur markaðssett grænmeti sitt gífurlega um allan heim.

Þess vegna segi ég að fjármálastefnan sé því miður ekki vinveitt þeim sem mest þurfa á henni að halda. Ég vona samt að hún verði það þegar fjárlögin sjálf koma, að þá verði séð til þess að þessir hópar fái sitt, að þeir þurfi ekki enn að herða sultarólina heldur verði þeim bættar verðbæturnar, verðbólgan sem hefur aukist og gengisfellingin sem hefur valdið hækkun á matvöru. Og að þeir fái líka umfram það vegna þess að stór hópur verður að láta senda sér mat og það kostar. Það er dýrara. Stór hópur þarf að kaupa sér grímur og spritt en hefur varla efni á því. Þetta eigum við að tryggja.