150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Vissulega er öll greiningarvinna af hinu góða í þessum efnum og okkur ber skylda til að fara varlega með fjármuni ríkisins. En telur hv. þingmaður raunverulegar líkur á því að þessi greiningarvinna hefði verið unnin með ítarlegri og dýpri hætti og af meiri innsýn af þessari nefnd en þar sem hún hefur verið unnin núna, ég leyfi mér að segja, um allan bæ og utan lands, á grundvelli þeirrar hlutafjársöfnunar sem nú er í gangi? Telur hv. þingmaður að það sé raunveruleg staða í málinu? Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að til að mynda í tengslum við 5. liðinn væri ófrávíkjanleg krafa að tekið væri tillit til sjónarmiða 1. minni hluta og þar fram eftir götunum. Mér fannst skína í gegnum ræðu hv. þingmanns að Samfylkingin (Forseti hringir.) væri andsnúin stuðningi við félagið en væri að setja það í þann búning að geta með góðri samvisku (Forseti hringir.) setið hjá við atkvæðagreiðsluna. Því í ræðu hv. þingmanns var þetta allt saman hálfómögulegt og ófrávíkjanlegir fyrirvarar úti um allt.