150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins bæta við fyrra andsvarið. Kostnaður við aðkomu ríkisins verður mjög skýr þegar kemur að því að hennar gerist þörf. Það skiptir í raun öllu máli í sambandi við ríkisábyrgðir þegar allt kemur til alls. Það ætti að meta kostnað ríkisins á samkeppnisáhrif, á ívilnun til fyrirtækisins og þess háttar ef veita á þessa ríkisábyrgð en það er ekki gert. Kostnaðurinn er einfaldlega rangur eins og hann er settur fram núna.

Varðandi eignarhald í bönkunum þá held ég að það hafi verið frekar einfalt. Talað hefur verið um það í fjöldamörg ár að aðskilja áhættusamar fjárfestingar og almenn bankaviðskipti. Ég held að svarið liggi í raun bara þar. Ríkið á að sjálfsögðu ekki að vera að skipta sér af fjárfestingarbönkum og eiga einhverja slíka. En það er ekkert að því að ríkið sé með almenna opinbera bankaþjónustu, bara einfalda þjónustu sem aðrir geta síðan verið í samkeppni um.