150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:02]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Icelandair er í vandræðum. Icelandair er kerfislega mikilvægt fyrirtæki sem þúsundir starfsmanna og hundruð fyrirtækja reiða sig á. Samfylkingin vill gæta þessara hagsmuna en einnig að hagsmunum almennings og samkeppni. Við hefðum kosið að tryggja betur hagsmuni skattgreiðenda í þessari 15 milljarða kr. ríkisaðstoð. Það er óumdeilt að tryggingar fyrir láninu duga ekki. Við hefðum því viljað skoða mun betur þann möguleika ríkisins að geta t.d. breytt láninu í hlutafé eða látið veð ríkisins ná til þess. Við hefðum einnig viljað tryggja betur að eigendur Icelandair, núverandi eða verðandi, mætti ekki rekja til skattaskjóla. Við viljum einnig að fyrirtæki sem njóta ríkisaðstoðar taki stór, mælanleg græn skref í sínum rekstri. Slíkt er ekki gert í þessu máli.

Að því sögðu vonum við að Icelandair nái aftur flugi og samgöngur við umheiminn verði tryggðar. (Forseti hringir.) Því leggjumst við ekki gegn málinu en það er hins vegar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.