151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar enga vinnu er að finna, eins og núna er, þá er fólk ekkert að leika sér að vera á bótum. Það vill enginn vera atvinnulaus. Það er það sem ég er að reyna að draga fram. Það hafa 20.000 störf horfið úr íslenska hagkerfinu samkvæmt Hagstofunni. Það eru 20.000 manns, sem er önnur tala, atvinnulausir. Meðan við sjáum ekki metnaðarfyllri atvinnuuppbyggingu og sköpun starfa þurfum við að nálgast þennan hóp með myndarlegri hætti. Ég held við eigum ekki að etja þessum tveimur hópum saman, atvinnulausum og þeim sem eru á lágmarkslaunum. Þeir sem eru á lágmarkslaunum eru á allt of lágum launum, 330.000 kr., það er lágt. Ég veit það. Ég hlýt að geta barist fyrir því að við eigum að geta hækkað atvinnuleysisbætur á sama tíma og ég tel að lágmarkslaun séu of lág. Það hlýtur að geta farið saman, herra forseti.

Mér finnst það líka vera rétt nálgun gagnvart þessum hópi, sem er afmarkaður hópur, að bætur séu ekki svona lágar, a.m.k. tímabundið, ef hæstv. ráðherra er hræddur um að þetta sitji of hátt of lengi.

Ég skoðaði aðeins í sumar hvort hækkun atvinnuleysisbóta letur fólk til atvinnuþátttöku eða ekki. Það er ekki. Ég skoðaði rannsóknir hjá Yale, Harvard og Moody's sem sýndu fram á að það var ekki. Meira að segja sums staðar í Bandaríkjunum eru atvinnuleysisbætur hærri en lágmarkslaunin. En það var samt ekki letjandi fyrir fólk að leita sér að vinnu. Hugsið ykkur. Ég er ekki að tala um að atvinnuleysisbætur fari upp fyrir lágmarkslaun. Ég er að tala um að við hækkum þær tímabundið í einhverjum skrefum til að gera þetta erfiða tímabil í lífi fólks aðeins bærilegra. Þegar fólk er komið á 250.000 kall á mánuði þá eyðir það öllu sem það fær vegna þess að það hefur ekki efni á öðru þannig að þetta fer aftur út í hagkerfið. Það er líka góð hagfræði, til að koma hjólum atvinnulífsins af stað, (Forseti hringir.) að styrkja lágtekjuhópa og millitekjuhópa með þessum hætti því að þeir eyða sínum peningum strax út í hagkerfið.