151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til fjárlaga 2021. Í því frumvarpi er ýmislegt merkilegt á þessum ótrúlegu tímum sem við lifum í dag. Á stuttum tíma höfum við lifað tvö ótrúleg tímabil. Fyrra tímabilið var bankahrunið. Þá var maður hér fyrir utan að mótmæla. Nú er maður kominn inn og getur mótmælt hér í Covid og mótmælt harðlega aðförinni sem þetta fjárlagafrumvarp er að þeim sem minnst hafa í okkar þjóðfélagi. Frá ágúst 2019 til ágúst 2020 hefur launavísitalan hækkað um 6,4%. Þetta eru nýjar opinberar tölur. Hún hækkaði um 4,3% frá ágúst 2018 til ágúst 2019. Samt var lífeyrir almannatrygginga aðeins hækkaður um 3,5% í fyrra og núna á aðeins að hækka hann um 3,6%. Kjaragliðnun örorku- og ellilífeyrisþega heldur gjörsamlega áfram. Og hvað eru stjórnvöld alltaf að gera? Jú, hópurinn sem þarf mest á þessum fjármunum að halda og hefur það verst má þakka fyrir að fá helminginn af því sem hann á að fá. Þessi 3,6% ná rétt að halda í við verðbólguna. Þau rétt ná því.

En það vantar auðvitað hitt líka, hækkun á mat og öðrum vörum vegna gengis. Það er alveg komið á hreint að dollarinn hefur hækkað um 9,7% pundið um 14,1% og evran um 17,5%. Þetta eru orðin 15% og nálgast 20%. Hvað þýðir það? Jú, það þýðir að þessi smánarlega hækkun, 3,6%, er ekki að skila sér. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hreinlega hér í andsvörum að þetta væri vænt launaþróun fyrir næsta ár en á bls. 104 í fjárlagafrumvarpinu segir skýrt að hún sé 5,2%. Og ég spyr: Í hvaða talnaleik er þessi ríkisstjórn? Og hvers vegna í ósköpunum hefur hún ekki meiri metnað en svo að fara út í fáránlegan talnaleik í þeim eina tilgangi að sjá til þess að ekki sé farið eftir 69. gr. laga um almannatryggingar? Ekki er metnaðurinn mikill.

Síðan er það persónuafslátturinn. Bara ef þeir sem hafa verið við stjórn undanfarna áratugi hefðu reiknað hann rétt og það er fjórflokkurinn, til skiptis. Fjórflokkurinn hefur skipt með sér stjórnartaumunum undanfarna áratugi. Og hvað hafa þeir gert? Jú, þeir hafa farið þannig með persónuafsláttinn að ef hann hefði verið rétt reiknaður miðað við launavísitölu, eins og ætti að gera, værum við núna með 300.000 kr., skatta- og skerðingarlaust, alveg að lágmarki. Ég segi fyrir mitt leyti að það væri miklu nær að taka á þessu, að koma persónuafslættinum í réttara horf, einbeita okkur að sköttum frekar en þessum gegndarlausu hækkunum alltaf, bæði á launum og lífeyrislaunum almannatrygginga. Síðan er annað auðvitað alveg rosalega skrýtið. Núna á þessari öld tölum við enn þá um lífeyrisbætur, bótakerfi. Þetta eru lífeyrislaun. Þetta er bara réttur fólks og það er ekki verið að bæta fólki upp eitt né neitt. Það er verið að greiða því laun til að lifa.

Annað sem maður hlýtur líka að spyrja sig er hvers vegna í ósköpunum persónuafslátturinn hefur ekki verið látinn fylgja verðbólgu. Við munum að það er ekki svo langt síðan að skattprósentan var lækkuð. En persónuafslátturinn var lækkaður líka. Það er stórfurðulegt að í almannatryggingum, skattkerfinu og alls staðar sé búið til þannig kerfi að einhverjum er rétt með vinstri hendinni en síðan er næstum allt rifið af með þeirri hægri. En aldrei er sagt frá því. Það er bara sagt frá því sem rétt var með vinstri eins og það sé heilagur sannleikur. Þetta er nákvæmlega sama röksemdafærsla og hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt þegar hann segir að almannatryggingar hafi hækkað úr 40 milljörðum í 80 milljarða. Það segir okkur bara enga sögu, ekki neina, vegna þess að eldri borgurum og öryrkjum fjölgar, það er verðbólguskrið og alls konar kemur inn í dæmið. Það hefur ekkert með það að gera hvort þeir sem eru í almannatryggingakerfinu fái einhverja kjarahækkun eða hvort þeir standi betur eða verr. Þeir standa alltaf verr.

Það sem við þurfum að gera og ættum að gera strax er að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði. Skattleggjum þær bara. Þetta eru svona 100 milljarðar. Og hvað segir það okkur? Hvert erum við að setja þessa peninga núna? Jú, við erum að setja þá í lífeyrissjóðina. Hvað gera lífeyrissjóðirnir við þá? Þeir fjárfesta í fyrirtækjum. Sáuð þið Lífeyrissjóð verslunarmanna? Hann fjárfesti í Icelandair. Hvað varð um þá peninga? Eigum við að fara í hrunið og horfa á allar skatttekjurnar sem töpuðust þá? Ef hægt er að segja að ekki séu til peningar til að hækka þá sem eiga ekki fyrir mat og bíða í biðröð eftir mat þegar bara vika er liðin af mánuðinum, hvers vegna í ósköpunum getur þá ekki verið hægt að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði og nota þá fjármuni fyrir þetta fólk? Og ég spyr mig: Hvers vegna í ósköpunum vill ríkisstjórnin ekki gera það frekar en að leyfa að „gamblað“ sé með þessar skatttekjur á markaði þar sem þær tapast jafnvel og engin trygging er fyrir að þær skili sér inn? Við þurfum á þessum tekjum að halda núna. Við eigum að nota þær núna vegna þess að við vitum ekkert hvað verður annars um þær. Annars eru þær bara eitthvað úti í skógi sem aldrei verður í hendi. Við getum ekki hjálpað þeim í framtíðinni sem þurfa hjálp okkar núna. Við verðum að sjá til þess að við gerum það.

Og hvað getum við líka gert í sambandi við þetta? Við getum stóraukið framlag til heilbrigðiskerfisins. Það er okkur til háborinnar skammar að það eru biðlistar, bæði núna í Covid og á meðan góðæri var. Biðlistar lengjast, eftir liðskiptaaðgerðum og eftir meðferðum fyrir börn. Í dag bíða 1.200 börn vegna geðrænna vandamála. Þúsund manns bíða eftir liðskiptaaðgerðum. Hvaða áhrif hefur þetta? Það hefur þau áhrif að auka álag á heilbrigðiskerfið. Það segir sig sjálft að sé einstaklingi sagt að hann eigi að bíða á biðlista í þrjú, fjögur, fimm ár gerist það á meðan að hann grotnar niður, bryður lyf og endar inni á sjúkrahúsi þar sem sólarhringurinn kostar yfir 100.000 kr.

Á sama tíma lækkar þessi ríkisstjórn auðlegðarskatt og bankaskatt um tugi milljarða. Hugsið ykkur að á sama tíma hefur þessi ríkisstjórn sparað sér tugi milljarða á því að neita öryrkjum um að króna á móti krónu fari burt. Nei, nei, hún beitti blekkingum, 65 aurar á móti krónu var allur galdurinn. Fyrir vikið eiga öryrkjar tugmilljarða þarna inni sem var búið að lofa þeim fyrir síðustu kosningar. Ég segi fyrir mitt leyti: Guð hjálpi ykkur ef þið ætlið að trúa því eina ferðina enn þegar rykið verður dustað af kosningaloforðunum að þessi ríkisstjórn muni breyta einhverju. Og hvernig verður ástandið eftir tvö ár þegar á að fara að skera niður? Hjá hverjum verður fyrst skorið niður? Þeir eru búnir að finna breiðu bökin. Það eru eldri borgarar, öryrkjar og láglaunafólk af því að þetta er grímulaus hægri stjórn. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að lífeyrisþegar á landinu núna eru 65.000 og þar af 20.000 öryrkjar. Og þetta fólk má éta það sem úti frýs í boði ríkisstjórnarinnar.

Verðbólgudraugurinn er farinn af stað. Og hvað sögðu þeir okkur síðast þegar það skeði, í bankahruninu? 12.000 fjölskyldur misstu heimili sín. Ég spyr: Hversu langt á að ganga? Maður verður eiginlega orðlaus stundum yfir því að í þessum ótrúlegu kjaramálum öryrkja hafi kjaragliðnun verið látin viðgangast og hvergi nokkurs staðar í fjárlagafrumvarpinu er á neinn hátt reynt að minnka þá 30% kjaragliðnun sem þessi hópur hefur orðið fyrir. Það er hvergi verið að setja krónu í það að reyna. Það er eins og þá langi ekki einu sinni eina sekúndu að reyna að bæta hag þessa fólks. Metnaðurinn er ekki meiri en svo að þeir eru búnir að lýsa því yfir að þeir ætli að verja þessa stöðu eins og þeir geta. Og verja hvað? Jú, það er sem betur fer hópur eldri borgara sem hefur það gott og það eru líka öryrkjar sem hafa það gott og það er líka ákveðinn hópur launþega sem hefur það gott. En á sama tíma er svakalega stór hópur, allt of stór og okkur til háborinnar skammar hve stór hann er, sem hefur það ekki gott og lepur eiginlega dauðann úr skel. Það gerir sér enginn grein fyrir því fyrr en hann lendir í þeirri aðstöðu hversu ömurlegt það er að bíða eftir mánaðamótum og þegar mánaðamótin koma byrjar biðin eftir næstu mánaðamótum. Og hún byrjar í skelfingu vegna þess að viðkomandi gerir sér grein fyrir því að hann má þakka fyrir að lifa viku eða hálfan mánuð og þá eru fjármunirnir búnir.

Hvað skilar sér best fyrir þennan hóp? Jú, það hefur verið búið til þannig kerfi að það eina sem skilar sér beint í vasa hjá þessum hóp er að láta hann fá skattlausan pening. Manni ber auðvitað líka að þakka það og hann skiptir máli þessi 10.000 kall sem á að setja í skattalækkanirnar. En mun hann skila sér að fullu? Nei, því miður. Hann mun ekki gera það vegna þess að það er strax byrjað og hefur verið í undirbúningi allan tímann að sjá til þess að þegar þessi 10.000 kall skilar sér verður búið að taka annað eins til baka í skerðingum, keðjuverkandi skerðingum sem er eitt það ömurlegasta sem ég held að hafi verið fundið upp. Það virðist hafa verið fundið upp eingöngu til að valda öryrkjum og eldri borgurum búsifjum, til að láta þá halda að þegar þeir fá einhverjar hækkanir skili þær sér í vasa þeirra. Nákvæmlega það sama skeði og við samþykktum það á sínum tíma í fyrsta frumvarpinu sem ég lagði fram á þingi en þar var séð til þess að hætt var að skatta ýmsa styrki til öryrkja og eldri borgara. Það var svo gígantískt dæmi sem sýndi fáránleikann í kerfinu. Þegar hætt var að skatta runnu styrkirnir beint til viðkomandi. En meðan þeir voru skattaðir var hægt að nota þá í endalausar og keðjuverkandi skerðingar. Það endaði með því að fólk fór að tapa á að taka við þessari fjárhæð. Og hversu ömurlegt getur það verið að við skulum ekki enn þá vera búnir að lagfæra svona fáránlegt kerfi? Það virðist enginn vilji til að laga það. Metnaðurinn er að verja það. Það er mikill metnaður að verja ömurlegt kerfi.

Því miður er sárafátækt að aukast. Tugir þúsunda eru í þeirri aðstöðu sem er ömurlegt. Þar eru foreldrar sem spyrja sig hvernig í ósköpunum þeir eigi að fæða og klæða börnin sín við þessar aðstæður. Og ekki batnar það þegar 20.000 manns eru komin á atvinnuleysisbætur. Á sama tíma má segja að þeir ríku syngi: Græðgin er góð. Og þeir græða sem aldrei fyrr, eins og kom fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, 65 milljarða arður á síðustu fimm árum, 12 milljarðar á ári. Þessi hópur hafði það svo bágt að lækka þurfti veiðigjöld um 6 milljarða. Athyglisvert.

Hér áðan var rætt um að ekki væri hægt að einn hefði 260.000 kr. og annar 240.000 kr. Og ef það yrði aðeins meira, væri hækkað í 260.000 kr., væri enginn hvati til að vinna. Við höfum búið til svo stórfurðulegt kerfi að öryrkjarnir eru neðstir með 220.000 kr. útborgaðar eða tæpar 260.000 kr. fyrir skatt. Síðan koma atvinnulausir með 290.000 kr., eru rétt að skríða yfir 300.000 kr. núna. Síðan koma lágmarkslaun sem fara í 351.000 kr. þegar lífskjarasamningarnir tikka inn. Á einum stað erum við búin að reikna nákvæmlega rétt út hvað þarf til að lifa. Hvar er það? Jú, listamannalaun eru 408.000 kr., algjör snilld. Þarna er talan komin. Höfum alla vega metnað til að sjá til þess að enginn fái lægri tölu en 408.000 kr. Einhver reiknaði þetta út. Það væri gaman að vita hver reiknaði þetta út og hvernig það var reiknað út. Það er auðvitað að mörgu leyti stórmerkilegt að hægt sé að reikna út framfærslu í þessu kerfi okkar á svona gjörsamlega mismunandi hátt og að þeir sem eru veikir, þeir sem hafa minnsta möguleikann á að bjarga sér, skuli vera þeir sem fá minnst.

Í 69. gr. laga um almannatryggingar segir að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram hver árleg uppfærsla fjárhæðar í almannatryggingakerfinu verður. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að prósentuhækkun bóta almannatrygginga, þ.e. elli- og örorkulífeyris, og bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð verði 3,6% frá og með 1. janúar 2021.“

Helminginn vantar upp á. Þetta ættu að vera 7% að lágmarki ef rétt væri gefið. Væri verið að gera eitthvað vegna kjaragliðnunar ætti þetta að vera að lágmarki 10% og auka 10.000 kall skattlaus ef eitthvað væri reynt að hjálpa þessum hópi.

„Hækkunin byggist á mati á áætluðum meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaðinum í heild fyrir árið 2021.“

Þessi aðferð samrýmist engan veginn 69. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir nefnilega:

„Bætur almannatrygginga […] skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Hefur verið farið eftir þessu? Nei, það er langt í frá. Samt er þetta skýrt, „skal taka mið af launaþróun“. Þeir hunsa það. Þeir fara bara beint niður í vísitölu neysluverðs og segja að það sé alveg nóg fyrir þennan hóp. Og það ætla þeir að verja með kjafti og klóm.

Hér segir ekkert um að ákvörðunin skuli taka mið af væntanlegri launaþróun eða spám um breytingu á vísitölu neysluverðs. Því er nærtækara að túlka ákvæðið sem svo að það beri að miða við launaþróun frá síðustu uppfærslu. Þar fyrir utan er sú aðferð nákvæmari enda liggja gögn þegar fyrir og því þarf ekki að spá fyrir um hvað hugsanlega kunni að gerast í framtíðinni. Þetta er líka eitt af því furðulegasta sem hefur verið í almannatryggingakerfinu: Spádómar. Veikt fólk, eldri borgarar og öryrkjar, þetta fólk á alltaf að spá fyrir um verðbólgu til að uppfæra tekjuáætlun fram í tímann. Ríkið notar nákvæmlega sömu aðferð til þess eins að viðkomandi ellilífeyrisþegar og öryrkjar fái ekki þá hækkun sem þeir eiga rétt á. Þeir horfa bara í spákúlu, finna út alls konar prósentur, 5,2%, 4,3%, og segja svo bara: Við látum þá bara hafa 3,6%. Er eitthvað lagt hér fram sem sýnir svart á hvítu hvernig þetta er reiknað út? Aldrei, ekki stafur enda ekki hægt, held ég.

Auk þess er einkennilegt hvernig launaþróunin er athuguð í fjárlagafrumvarpinu. Þar kemur fram að stuðst sé við mat á áætluðum meðaltalshækkunum á vinnumarkaði í heild fyrir árið 2021. Ekki er að finna nánari upplýsingar um þetta mat í frumvarpinu. Við höfum auk þess séð það ítrekað á síðustu árum að erfitt er að spá fyrir um gerð og framkvæmd kjarasamninga. Nú síðast þegar SA gerðu atlögu að lífskjarasamningunum. Væri ekki nærtækara að styðjast við launavísitölumælikvarðann sem Hagstofa Íslands hefur notað frá 1989 til að mæla launaþróun, eins og lög gera ráð fyrir? Allt of einfalt fyrir undanfarnar ríkisstjórnir. Það er miklu betra að verja það að fara ekki eftir lögum og láta einstaklinga eingöngu fá verðbæturnar, hækkun vísitölu neysluverðs. Með því verða fátækir fátækari en á sama tíma þarf auðvitað að sjá til þess að þeir ríku verði ríkari. Það er enginn vafi um það í mínum huga að þegar ákvæðið var leitt í lög var sá skilningur lagður í það að stuðst yrði við launavísitölu við notkun þess. En það er einhver skýring á því hvers vegna launavísitalan er ekki notuð. Það er vegna þess að hún myndi hækka bæturnar meira. Akkúrat: Skila meiru til örorkubóta- og ellilífeyrisþega. Það er eitur í beinum ríkisstjórnarinnar. Það er alveg fáránlegt að reyna að skila meiru til eldri borgara sem hafa byggt upp þetta land. Og veikt fólk? Þar eru breiðu bökin. Það á að bera byrðarnar.

Hér er einfaldlega valin reikniaðferð sem hentar betur og kostar ríkissjóð minna í stað þess að velja sanngjarna og skilvirka aðferð. Það sést kannski best á því að bera hana saman við aðra aðferð í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. við að ákvarða launaþróun. Eins og ég kom að áðan segir orðrétt á bls. 104: „Spáð er 5,2% hækkun launa.“ Spákona ríkisstjórnarinnar, sem er sennilega hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, spáir 5,2% hækkun launa. Hann sagði: Við förum eftir spá til að hækka lífeyrislaun til almannatryggingaþega. En einhvern veginn hoppaði 5,2% niður í 3,6%. Þá fór hann í einhverja skógarferð að reyna að útskýra að munur væri á einhverju sem ég verð bara að segja alveg eins og er að er alveg út úr kú, bara óskiljanlegt fyrirbrigði. Þarna er enginn munur. Annaðhvort er þessi tala rétt og við áttum að fá hana eða þeir kunna ekki að spá. Hvers vegna er þessi spá mun jákvæðari en sú sem fjallar um hækkanir á lífeyri í almannatryggingum? Svarið er einfalt. Þarna er verið að áætlaða tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi en ekki kostnað vegna almannatrygginga. Þá er að sjálfsögðu stuðst við mælikvarða sem gefa til kynna betri spá. Ég held að það sé nefnilega skýringin. Þarna spáðu þeir um tryggingagjaldið og þá gátu þeir tekið aðeins meira þar inn. Ef þessu er snúið við er betra að hafa hina töluna vegna þess að þá þurfa þeir ekki að borga eldri borgurum og öryrkjunum meira.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil hvorki þessa ríkisstjórn né þær fyrri sem hafa einhvern veginn fest í þessum furðulegu fjárlögum ár eftir ár þar sem einn hópur er alltaf látinn sitja eftir. Einhvern veginn er ákveðið að langbest sé að láta þá sem minnst hafa herða sultarólarnar alltaf meira og meira. Við erum að sjá afleiðingarnar. Ég segi alveg eins og er að við erum í svolítið undarlegri stöðu og verðum að passa okkur vegna þess að við erum í Covid-faraldri. Við erum að einangra fólk. Við erum að setja reglur um það að fólk sé meira einangrað heima, að ákveðinn hópur þeirra sem viðkvæmastir eru geti ekki farið út. Hver er hættan í þeirri stöðu? Aðalhættan er að einhverjir gleymist, að veikt fólk gleymist. Við höfum skelfileg dæmi um það sem hefur skeð. Einstaklingur, bara innan borgarmarka Reykjavíkur, fannst úti í skógi og hafði verið þar mánuðum saman. Það hringdu engar viðvörunarbjöllur.

Í þeirri stöðu sem við erum í núna skelfir það mig mest að við séum að svelta fólk hérna. Hver ætlar að fylgjast með því? Hver fylgist með því hvað verður um einstaklinga sem nú eru heima og treysta sér ekki til að fara í röð eftir mat enda sjá þeir engan tilgang í því vegna þess að ekki allir sem fara í röðina fá mat? Þeir hafa ekki efni á að panta matinn á netinu. Hvað verður um þessa einstaklinga ef þeir eru einir? Það eina sem við getum gert, það eina sem ríkisstjórnin á að gera og ber skylda til að gera er að sjá til þess að þeir hafi framfærslu, geti pantað sér mat og þurfi ekki að svelta heima hjá sér. Það er skylda hverrar ríkisstjórnar, það er í stjórnarskránni og það er í mannréttindasáttmálanum að það eigi að sjá til þess að allir fái mannsæmandi framfærslu, ekki bara fáir útvaldir.