151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ábendinguna. Hann gat sérstaklega um utanríkisráðuneytið. Ég nefndi það að hækkun milli ára eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu nemur 1 milljarði. Ég veit að hluti af því er hækkun framlaga til þróunarsamvinnu, en það er t.d. hækkun þarna til sendiráða um rúmar 200 milljónir. Ég geri mér grein fyrir að utanríkisráðuneytið er mikilvægt ráðuneyti og þar starfar mjög hæft starfsfólk og gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í stjórnsýslu okkar. En nú blasir við einn mesti samdráttur og ein mesta skuldasöfnun ríkissjóðs nánast í sögunni og þá verðum við að leita allra leiða til að hagræða og nýta peningana sem best. Og maður spyr: Hækkun upp á 200 milljónir til sendiráða, er það nauðsynlegt? Hækkun til stjórnsýslu ríkisfjármála upp á 2,2 milljarða kr., er það nauðsynlegt? Er nauðsynlegt að setja 3 milljarða í málaflokkinn um umsóknir um alþjóðlega vernd þegar flestallir sem sækja um hér eru að leita betri lífskjörum og eiga ekki lögmætan rétt til að sækja um? En svo erfiðlega gengur að afgreiða þessar umsóknir að við þurfum að halda þessu fólki uppi á meðan það bíður eftir sinni niðurstöðu. Allt kostar þetta peninga, hv. þingmaður.

Nú verðum við að velta við öllum steinum. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi réttilega að það væri blóðug sóun úti um allt í opinbera kerfinu og ég held að það sé margt til í því. Það er víða hægt að hagræða. Og ef það er ekki tími núna til að reyna að finna þá peninga sem við getum nýtt til að skapa t.d. tímabundin störf til að draga úr atvinnuleysi, draga úr greiðslu atvinnuleysisbóta úr ríkissjóði, þá spyr ég bara: Hvenær er það hægt? Þetta er bara það sem liggur fyrir, hv. þingmaður, og blasir við í frumvarpinu. Það er rétt að við förum algerlega í saumana á því í vinnunni sem fram undan er og ég vona að ég eigi bandamann í hv. þingmanni hvað þá vinnu varðar.