151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að á stundum þykir mér áhugi hv. þingmanns á formreglum yfirskyggja alla praktíska hugsun. Við erum hér með stjórnkerfi sem tekur á sig lagaskyldur til að gera grein fyrir tillögum um fjárheimildir og fjárveitingar til ríkisaðila. Við höfum aldrei í Íslandssögunni haft meiri getu og lagt meira á okkur til að vinna að bæði áætlunum næsta árs og ekki síður til lengri tíma. En hv. þingmaður klifar á því að við séum svo langt frá því að vera komin á þann stað sem við ættum að vera á.

Ég kem hins vegar úr hinni áttinni. Ég sé framfarirnar, ég sé umbæturnar, ég sé aðhaldið sem þessi umgjörð veitir bæði Stjórnarráðinu og þinginu, ég sé breytingarnar á verklagi og umræðu hérna í þinginu. Við erum að taka svo stórstígum framförum að það er ekki hægt að bera það saman (Forseti hringir.) hvernig umræða um þessi mál fer fram í dag og hér fyrr á tíð. (Forseti hringir.) Þó að það kunni að vanta eitthvað upp á fyrir þá sem allra stífastir eru á formkröfunum bið ég menn um að opna augun og sjá breytinguna.