151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst af öllu hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá víðsýni sem hann sýnir með því að taka nú loks upp tillögu okkar Miðflokksmanna, sem við höfum flutt þrisvar sinnum, um að auka fé til skattrannsókna og til Skattsins um 250 milljónir, og því ber að fagna. Hæstv. fjármálaráðherra benti réttilega á að ráðstöfun fjár með þessum hætti er líkleg til að auka tekjur ríkissjóðs vegna þess að innheimta batnar. Ég sá reyndar ekki í frumvarpinu, og hæstv. ráðherra leiðréttir mig þá, að skattrannsóknarstjóri væri að fá einhverja tilgreinda upphæð heldur var þetta merkt Skattinum. En virða ber það sem vel er gert.

Þá vil ég enn einu sinni, herra forseti, minnast á málefni tollgæslu. Ég sá ekki við yfirferð minnisblað, ég veit að kallað var eftir því, sem ég held að sé ekki komið um sundurliðun þar á. En það er ljóst að mikil fjárþörf er hjá tollgæslunni, sérstaklega til endurnýjunar búnaðar. Við Miðflokksmenn höfum flutt hér, líklega í tvö til þrjú ár, tillögur sem varða tæknibúnað sem nauðsynlegur er tollgæslu til að inna af hendi vinnu sína á landamærum og auka öryggi landsins á allan hátt. Þó að nú sé fátt um ferðamenn eru verkefni tollgæslu miklu fleiri en varðar ferðamenn. Verkefnin varða líka innflutning á öllum vörum, innflutning á smápökkum og sendingum. Ég vek athygli á því að þrátt fyrir lítið flug nú í vor var samt nóg af fíkniefnum á markaði hér á Íslandi sem einhvern veginn hafa komist inn í landið. Ég verð því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli sér að bæta hag tollgæslu í þessu frumvarpi og þá með aukatillögum.