151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að ítreka það að við getum haft væntingar um að veiðigjaldið muni skila enn meiri tekjum en forsendur fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir í ljósi þess að það virðist hafa verið mjög gott rekstrarár hjá útgerðinni árið 2019. Þetta sjáum við betur eftir álagningu ársins sem er fram undan.

Hér er spurt um lágmarkstekjur í landinu og samhengið við bætur almannatrygginga. Við höfum séð sögulega gríðarlega aukningu á lágmarkstekjum í landinu á undanförnum árum. Hér hafa verið gerðir kjarasamningar þar sem aftur og aftur er lögð áhersla á hækkun lægstu launa. Þá er bent á að það þurfi að láta almannatryggingar fylgja með sama hætti og í sama takti. En spurningin sem æpir á mann í þessu sambandi er: Hver á að borga þetta? Hver á að borga þegar bæði ellilífeyrir almannatrygginga og örorkulífeyrir hefur hækkað á fjárlögum um u.þ.b. helming? Við höfum á sjö, átta árum tvöfaldað fjárhæðina í fjárlögum. Og eftir situr spurningin þegar menn koma hingað og segja að þetta sé bara alls ekki nóg: Hver á að borga þetta?

Við erum með tryggingagjaldið til að standa undir þessu en það er sífellt lægra hlutfall af fjármögnun almannatrygginga. Hvaða tekjur er hv. þingmaður með í huga til að fara að auka um tugi milljarða útgjöld almannatrygginga á sama tíma og ríkissjóður er rekinn með 300 milljarða halla? 300 milljarða eða því sem næst á þessu ári og svo 260 milljarða á næsta ári, tæplega 600 milljarða halla. En hv. þingmaður er í raun og veru að boða milljarða ef ekki tugmilljarða aukningu útgjaldanna ofan á það.