151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við byggjum fjárfestingarátak okkar m.a. á því að núna sé skynsamlegt að ráðast í arðbærar fjárfestingar til lengri tíma. Það er ekki bara vegna þess að þær eru arðbærar heldur vegna þess að aðstæður hafa leitt til þess að svigrúm er fyrir stóraukin umsvif ríkisins í fjárfestingum. Það svigrúm myndast vegna slakans sem orðinn er í fjárfestingum einkageirans. Það er ekki bara út frá arðsemissjónarmiði heldur líka vegna efnahagslegra ástæðna sem við höfum ákveðið að ráðast í þetta átak. Til lengri tíma litið þurfum við að fylgjast mjög vel með fjárfestingarstigi ríkisins þannig að tryggt sé að það mæti að lágmarki afskriftaþörf opinberra eigna. Með nýjum reikningsskilareglum erum við að byggja upp efnahagsreikning ríkisins sem gerir okkur kleift að horfa yfir tíma til þess hvað verið er að afskrifa þar. Þá förum við smám saman að hafa getu til þess að leggja gróft mat, það verður aldrei nema gróft mat, á það hvort fjárfesting fari fram úr afskriftum. Ef ekki þá erum við að ganga á stofninn.

Það sem við höfum gert fram til þessa er m.a. að byggja það inn í gerð samgönguáætlunar að arðsemismat sé framkvæmt. Það er þá hlutverk samgönguráðs að koma með tillögur til samgönguráðherra um forgangsröðun verkefna þar sem m.a. er verið að horfa á arðsemi. En við erum ekki hér með heildstætt mat á öllum verkefnum hvað arðsemina varðar. Við erum meira að byggja á almennum sannindum um að sumar tegundir framkvæmda geti reynst arðbærari en aðrar. Svo er þingið auðvitað þekkt fyrir það að taka reglulega hreinar pólitískar ákvarðanir um fjárfestingar án tillits til hagrænnar mælingar á arðsemi, en það er efni í aðra umræðu.