151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:10]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég held áfram í sama kafla áætlunarinnar, en þar kemur fram að eitt af markmiðunum sé að styðja enn betur við þann hóp sem fær endurhæfingarlífeyri. Þetta er í kafla um markmið og mælikvarða. Þar segir að auka eigi áherslu á starfsendurhæfingu í því skyni að draga úr nýgengi örorku og gefa fleiri einstaklingum tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði. Samhliða því verði tímabil endurhæfingarlífeyrisgreiðslna lengt úr þremur árum í fimm. Það er gott og vel.

Nú hef ég heyrt að þeir sem hyggja á nám og þá sérstaklega á háskólastigi geti aðeins sótt þrjá áfanga um það bil, í stað þess að stunda fullt nám. Flækjan í þessu máli er að viðkomandi einstaklingur fær kannski inni í háskóla með því að skrá sig í fullt nám. Er þetta ekki óþarfagirðing? Er þetta atriði sem hæstv. ráðherra getur bætt úr, í reglugerð til að mynda eða þarf meira til?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé til skoðunar að opna frekar á möguleika þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri að sækja nám bæði á framhalds- og háskólastigi þótt ég geri mér grein fyrir því að VIRK og Vinnumálastofnun séu vegna vinnumarkaðarins en ekki endilega vegna menntunar. En allt helst þetta jú í hendur.