151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það vill svo til að ég vildi spyrja um nokkurn veginn sömu hluti og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson. Ég leyfi mér kannski bara að ítreka þau málefnasvið sem við höfum verið að ræða hér. Mig langar að vitna í orð vinsæls tónlistarmanns, þjóðargersemi myndi ég kalla hann, Páls Óskars, með leyfi forseta:

„Við erum flest öll búin að vera tekjulaus eða búin að upplifa tekjutap allt niður í 70% og sum okkar eru búin að vera launalaus núna í sjö mánuði. Enginn getur lifað áttunda mánuðinn. Ég er kannski heppinn, ég á bara tvo ketti, en á bak við mig eru kannski tíu tónlistarmenn sem eiga börn og heimili og eru að borga af bílum, húsnæðislánum og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að já, við þurfum líka hjálp.“

Hæstv. menntamálaráðherra boðar frumvarp sem á að einhverju leyti að koma til móts við stöðu tónlistarfólks, en ég vil spyrja hvers vegna þessar gríðarlega löngu tafir hafa orðið. Hver stendur í vegi? Er það mögulega yfirlýst andstaða Sjálfstæðisflokksins við menningarstarf sem stendur í vegi fyrir þessu?

Ég spyr vegna þess að fyrri úrræði ríkisstjórnarinnar hafa einfaldlega ekki gagnast tónlistarfólki nema að mjög takmörkuðu leyti. Hlutabætur ná til fárra tónlistarmanna. Verkefna- og launasjóðir ná eingöngu til hluta stéttarinnar og tónlistarfólk hefur ekki getað fengið óafturkræfan kostnað bættan vegna aflýstra tónleika o.s.frv. Þetta hefur gengið á í fleiri mánuði. Hvers vegna tók þetta svona langan tíma?

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í stöðu RÚV. Framlög til Ríkisútvarpsins lækka um 310 milljónir milli ára og ég sé að í fjármálaáætlun er vísað í að það sé bara með tilliti til útvarpsgjalds. En útvarpsgjaldið er samt bara að lækka um 60 milljónir milli ára. Hvað skýrir þennan mun, (Forseti hringir.) hvers vegna er miklu meiri lækkun en sem nemur útvarpsgjaldinu?