151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:19]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér eru til umræðu fjármálaáætlun og fjárlög fyrir árið 2021 og mig langar til að rýna ofan í málefni landbúnaðarins. Það er ánægjulegt að sjá í fjárlagafrumvarpinu að gert er ráð fyrir að verkefni tengd vörnum gegn sýklalyfjaónæmi séu innan rammans og unnið verði áfram á þeirri braut er Alþingi samþykkti vorið 2019. Auk þess er ánægjulegt að framlög verði hækkuð í tengslum við endurskoðun garðyrkjusamnings með það að markmiði að auka framleiðslu á næstu þremur árum. Um er að ræða 200 millj. kr. í tengslum við garðyrkjuframleiðsluna og er verkefnið hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna við niðursveiflu í efnahagslífinu í tengslum við heimsfaraldurinn.

Þessi heimsfaraldur vekur upp nýjar nálganir og aðrar áherslur. Innlend matvælaframleiðsla er mikilvæg og kannski aldrei eins mikilvæg og í því ástandi sem er uppi núna.

Þá kem ég aðeins að tollum. Tollur á matvæli er umræða sem er reglulega tekin upp. Valinkunnir talsmenn frjálshyggjunnar bera sig aumlega undan tollvernd á íslenskum landbúnaðarafurðum og má skilja á þeim að hér sé um séríslenska tegund að ræða, líkt og íslenska sauðkindin. Það þurfi bara að spýta í lófana og fara í markaðsátak og nýsköpun, þá sé fullkomnum markaði borgið.

Í störfum þingsins í dag gerði ég að umtalsefni ósamræmi í tölum um útflutning landbúnaðarvara frá ESB til landsins og tölum um innflutning í gögnum Hagstofu Íslands. Þessi munur kallar á skýringar og er í raun mjög alvarlegur, ef satt reynist, og lögbrot. Ég geri mér grein fyrir að tollarnir eru ekki á málefnasviði landbúnaðarráðherra, en ég vil samt spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra, því að það á að vera mjög ofarlega á borði hans að fylgjast með því að þetta sé allt rétt gert: Má finna þess stað í fjárlagafrumvarpinu að efla tolleftirlitið þannig að það virki með öflugum hætti?