151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Peningastefnunefnd Seðlabankans greindi frá því í morgun að hún hygðist halda vöxtum bankans óbreyttum um sinn og byggir það á því að útlit sé fyrir erfiðari tíma á efnahagssviðinu á næstu mánuðum og misserum en vonir stóðu kannski til. Í greinargerð nefndarinnar kemur fram að fyrri hluti ársins hafi verið ívið betri en við mátti búast og það er út af fyrir sig fagnaðarefni. Hins vegar telur peningastefnunefndin að nú með haustinu séu hlutir að verða erfiðari viðureignar, að það muni herða meira að og ég held að það komi í sjálfu sér engum á óvart þegar horft er til þeirra aðstæðna sem við búum við. Niðurstaða peningastefnunefndar er svo sem í samræmi við annað sem fram hefur komið um efnahagsmálin á síðustu vikum. Við stefnum inn í nokkuð erfitt tímabil efnahagslega út frá atvinnu og þess háttar. Annars vegar þurfum við auðvitað að bregðast við, eins og ríkisstjórnin hefur haft forgöngu um að gera, með bráðaaðgerðum sem við getum kallað svo, sem fela í sér að reyna að milda höggið bæði fyrir þær atvinnugreinar og það starfsfólk sem harðast verður úti í þessu ástandi sem við vitum hvernig til er komið. Til lengri tíma litið er auðvitað ljóst að til að ná efnahagnum aftur á skrið, til þess að ná okkur upp úr þessu, tryggja fulla vinnu í landinu að nýju og öflugan uppgang efnahagslífsins, þá þurfum við að grípa til almennra aðgerða til lengri tíma sem bæta (Forseti hringir.) starfsskilyrði fyrirtækjanna. Öðruvísi munum við ekki ná að vaxa út úr kreppunni.