151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og ég tek undir það að eitt af þeim markmiðum sem við setjum okkur er að fjölga menntuðum lögreglumönnum. Þess vegna komum við á fót sterkara og öflugra námi til þess að takast á við fjölbreyttan veruleika lögreglumanna sem ég ræddi í fyrra andsvari. Fjölbreytileikinn vegur þungt í nútímalöggæslu. Á dagskrá er að það séu 40 lögreglumenn í skóla á ári en þau voru um 20 fyrst, að mig minnir, þannig að þeim hefur verið að fjölga. Það er mjög mikilvægt að sú þróun haldi áfram í takt við þá þörf sem er fyrir menntaða lögreglumenn um land allt. Við höfum verið að fjölga í rannsóknardeildum og við höfum fullfjármagnað aðgerðaáætlun í kynferðisbrotum, aukið er við til rannsóknarlögreglumanna og allra embætta vegna þess. Það þarf auðvitað að meta það í takt við þá löggæsluáætlun sem liggur fyrir hvar þörfin er og ekki síst einmitt í þessu ástandi að tryggja að við séum að fullmanna og tryggja góða mönnun lögreglunnar um land allt.

Ég held að skrefið með skólanum hafi verið gott. Þegar reynsla er komin á skólann er um að gera að líta til baka og skoða hvað hefur verið gert vel og hvað þarf að bæta. Það erum við alltaf að gera, til að mynda með fjölbreyttari námskeiðum til að svara þörfum nútímalöggæslu.