151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Mig langar að spyrja ráðherrann út í málaflokk sem skiptir réttindi einstaklinga miklu máli, þ.e. persónuvernd. Með samþykkt nýrra laga 2018 urðu vatnaskil í persónuverndarmálum hér á landi og í framhaldinu hefur bæði málafjöldi og flækjustig mála hjá Persónuvernd stóraukist. Mig langar að við veltum því fyrir okkur hvort fjárheimildirnar fylgi þessari þróun nægilega vel eftir. Í fjármálaáætlun er miðað við árið 2016, þar sem fjárheimildir voru 101 millj. kr., og síðan árið 2019, þegar fjárheimildir voru komnir 288 millj. kr. Ég velti fyrir mér hvort 2018 væri kannski betra viðmiðunarár, árið þar sem nýju lögin tóku gildi. Þá voru fjárheimildir rétt rúmar 200 millj. kr. og eru í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár 290 millj. kr. og lækka að raunvirði frá þessu ári.

Þetta vil ég lesa í samhengi við markmið um málaflokkinn varðandi styttingu málsmeðferðartíma þar sem ekki er stefnt á að jafnvægi verði náð milli innkominna og lokinna mála á ári fyrr en árið 2025, sem sagt við lok áætlunarinnar. Er það ásættanlegt? Þarf ekki að stíga miklu stærri skref? Persónuvernd var fjársvelt þegar nýju lögin tóku gildi. Það þurfti að vinna upp málahala, það þurfti að greiða skuld við stofnanirnar sem fólst í því að hún var undirmönnuð árum saman. En þarf það ekki að gerast miklu hraðar en svo að við náum ekki jafnvægi fyrr en eftir fimm ár, sjö árum eftir að ný lög um persónuvernd hafa tekið gildi?