151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda duga þær aðgerðir sem nú er búið að skipuleggja fyrir helmingi þeirra markmiða sem við þurfum að ná fyrir árið 2030. Sú fjármálaáætlun sem við höfum í höndunum nær yfir helming þess tíma. Með leyfi forseta:

„Markmið Íslands er að ná 40% samdrætti í losun sem fellur utan viðskiptakerfis Evrópusambandsins um losunarheimildir (ETS-kerfið) á tímabilinu 2021–2030 miðað við árið 2005. Ekki hefur verið sett markmið fyrir hvert ár á tímabilinu, heldur er um að ræða heildarmarkmið fyrir allt tímabilið.“

Við fáum nefnilega ekki að sjá hvaða árangri við þurfum að ná fyrir ákveðin tímabil, t.d. helming tímabilsins sem þessi fjármálaáætlun nær til. Þetta er vandamálið í hnotskurn. Til þess að ná heildarmarkmiðinu eiga stjórnvöld að leggja fram raunhæfa stefnu um hvernig á að ná heildarmarkmiðinu. Það þýðir a.m.k. að við setjum fram ákveðnar vörður sem þyrfti að ná á tímabilinu til að við getum áttað okkur á því hvort fjármagnið sem við leggjum í þennan málaflokk skili þeim árangri sem við vonumst eftir.

Spurningar mínar til hæstv. umhverfisráðherra eru því einfaldar: Hvaða árangri náum við með því fjármagni sem hér er lagt til að fjárveitingavaldið samþykki? Af hverju eru þær aðgerðir sem eiga að fá fjárveitingar betri en aðrar aðgerðir varðandi helminginn sem vantar upp á til að ná markmiðunum?