151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna og ætla að gera mitt besta til að svara henni miðað við aðstæður. Hér er spurt um það sem snýr að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og vísað í þá úttekt sem hv. þingmaður gerði. Aukningin sem hefur orðið núna er umtalsverð, frá 2014–2020, fer úr um 2 milljörðum í yfir 3 milljarða, ef ég les þetta rétt. Við erum að tala um að 2019 var raunhækkun til Suðurnesja 21,9% og í fjárlögum 2020 kom svo 40 millj. kr. fjárveiting til að styrkja stofnunina vegna falls WOW air, þannig að hér er verið að reyna að taka tillit til fjölgunar íbúa á því svæði. Ég deili því með hv. þingmanni að þetta er náttúrlega svæði sem hefur vaxið gríðarlega mikið á undanförnum árum og verið er að gera það sem hægt er til þess að nýta þá viðbótarfjármuni sem hafa verið að koma, m.a. út af Covid, þarna inn. Þarna er verið að horfa líka, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir vel, til fjölmenningarsamfélagsins og mikillar fjölgunar íbúa og áfalla í atvinnulífinu, þ.e. það sem kemur inn á árinu 2020. Ég held að þetta séu kannski stóru drættirnir í þessu. Það má nefna líka að í fjáraukalögum 2020 var samþykkt 200 millj. kr. fjárveiting til fjárfestingarátaks á Suðurnesjum, m.a. til að bæta aðkomu fyrir sjúkrabifreiðar hjá stofnuninni og fara í ýmis önnur nauðsynleg verkefni. Ég hef þetta ekki lengra í bili.