151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að koma sérstaklega inn á hjúkrunarrýmin, enda hefur það verið mikið áherslumál heilbrigðisráðherra að stórauka þá þjónustu. Auðvitað þurfum við til lengri tíma litið að horfa til þess að geta sinnt heimahjúkrun meira en við gerum í dag, að áherslan fari inn á það og kannski þá í minna mæli á hjúkrunarrýmin. Hér er verið að mæta stórum áskorunum. Biðlistarnir náðu hámarki í lok árs 2018, það er mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum. En eins og við þekkjum þá er gert ráð fyrir að um 650, ef ég man þetta rétt, ný hjúkrunarrými verði til, hluti af því er reyndar endurnýjun á eldri rýmum.

Þegar kemur að rekstrinum þá er það alveg hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Það er ekki nóg að byggja. Það þarf líka að tryggja að hér sé hægt að reka heimilin til framtíðar. Það er búið að tryggja það núna fyrir 2021. En því miður þarf að skoða þetta betur fyrir árin þar á eftir og það er bara verkefni sem er í gangi í ráðuneytinu og er í frekari skoðun. Væntanlega verður hægt að skoða þetta enn frekar þegar nefndin hefur lokið sínum störfum. En heilt yfir er þetta eitt af þeim stóru verkefnum sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu og mun svara helstu þörfinni, vonandi, á næstu árum. Þetta er stórt verkefni og það heldur áfram.