151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og það er gott að heyra að löggjöfin hefur líka þróast á þennan hátt og Evrópurétturinn. Auðvitað held ég að við höfum, í nauðvörn okkar á sínum tíma, ratað á alveg réttu leiðina, að gera innstæður að forgangskröfum og hafa þær þar og að síðan sé þessi leið fær og lögleg ef í óefni fer, að bjarga því sem bjarga þarf, sérstaklega þegar viðskiptabanki með innstæður almennings fer niður, yfir í eitthvert nýtt umhverfi og taka eignir á móti. Svo má alltaf glíma við að finna verðmat á þeim eignum. Við þyrftum meira en andsvar af ræðutíma til að skemmta okkur við þá sögu alla, það var ekkert smáverkefni að finna út úr því. En allt fór það nú vel að lokum.

Ég játa að ég hef ekki fylgst jafn nákvæmlega með þessu og áður eða verið á tánum gagnvart þessu allra síðustu misserin. En mér leist alltaf vel á það sem var nefnt þarna strax 2012 og 2013, að það væri líka hægt til öryggis að hafa í reynd þannig bókhaldslegan aðskilnað inni í einum banka, sem væri með blandaða starfsemi, að kæmi til vandræða væri hægt að aðskilja í slitunum fjárfestingarhlutann. Auðvitað snýst þetta allt um það að ekki sé tekin ólíðandi áhætta með hagsmuni almennings, innstæður almennings, í fjármálafyrirtækjum. Ef það á að leyfa þeim yfir höfuð að vera með einhverja aðra starfsemi, fjárfestingarstarfsemi, stöðutöku, þá finnst mér mjög notalegt til þess að hugsa að hvort tveggja sé að það verði aldrei nema visst hlutfall af umfangi þess banka og síðan sé líka hægt að aðskilja það og gera það þannig upp að hagsmunum innstæðueiganda sé borgið á undan öðrum. Það verða þá að vera aðrir sem taka skellinn en þeir sem í góðri trú leggja inn sitt sparifé í banka.