151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

tekjutenging atvinnuleysisbóta.

[15:10]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Umræður um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í síðustu viku lituðust óneitanlega af Covid-ástandinu. Ekki er ástæða til að draga fjöður yfir það að verkefni stjórnvalda er risastórt. Það er samt erfitt að finna hversu margir upplifa nagandi óvissu, skort á upplýsingagjöf og takmarkaðar bjargir. Með það í huga að ég veit að hæstv. forsætisráðherra vill hafa bæði sanngirni og réttlæti að leiðarljósi í þessari vinnu spyr ég um fyrirkomulag framlengingar á tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Ég spyr um ástæður þess að þeir sem misstu vinnuna vegna faraldursins strax í mars njóta ekki þeirra bjarga sem ríkisstjórnin ákvað í lok ágúst, þ.e. að framlengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur um aðra þrjá mánuði. Breytingin, sem hefur verið kallað eftir töluvert lengi, var kynnt í lok ágúst, tók gildi 1. september og á aðeins við um þá einstaklinga sem þá voru enn á þessu tekjutengda tímabili og þá sem komu í framhaldinu.

Þetta er mál sem tengist því sem töluvert hefur verið varað við hér og það er hættan á því að taka lítil skref. Ég nota orðið bútasaumur, menn geta brugðist við því og talið það ósanngjarnt, en það eru lítil og ómarkviss skref sem geta leitt til svona mistaka. Ég vil trúa því að þetta séu mistök, að það hafi átt að sauma þetta betur saman. Auðvitað er það dýrara og ég átta mig á því að útgjöld ríkissjóðs eru í hæstu hæðum vegna atvinnuleysisbóta. En við hljótum líka að vilja nota þau miklu útgjöld á sanngjarnan og réttlátan hátt og á það skortir hér. Ef menn hefðu haft þá hugsjón í upphafi hefði verið hægt að stytta þessa framlengingu, dreifa þessu, ef það eru einu fjármunirnir sem úr er að spila. En spurningin er: Á að laga þetta?