151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

barnalög.

11. mál
[17:19]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við tökum hér öðru sinni fyrir frumvarp um breytingu á barnalögum, og það er gott. Í frumvarpinu eru margar góðar breytingar og áherslupunktar, t.d. nýtt ákvæði um heimild til að semja um skipta búsetu, og það er gott, og annar þáttur þar sem í boði er samtal að frumkvæði barnsins. Ég tel það mjög góðan þátt í þessu og það sýnir að við erum að breyta áherslum af því að allt er að breytast hjá okkur. Hugmyndir okkar um fjölskyldur hafa breyst og eiga að breytast og við þurfum að reyna að vera í takt við það sem raunveruleikinn sýnir okkur.

Það sem ég vildi kannski helst koma inn á snýr að börnum sem eiga foreldra í tveimur landshlutum. Ég veit að þetta var nokkuð rætt í nefndinni á síðasta þingi en komst víst ekki áfram. Það er hópur barna sem á foreldra í tveimur landshlutum. Það er ekki svo að öll börn eigi foreldra í sama hverfi og eigi auðvelt með að sækja skóla þar. Vissulega er það í mörgum tilfellum af því að stærstur hluti þjóðarinnar býr hér á suðvesturhorninu, en því miður er það ekki staðan hjá mörgum og í því felast mörg og löng ferðalög fyrir börnin. Þá komum við að þeim hluta sem snýr að skólagöngu. Þótt samkomulag sé á milli og allt í lagi með það þarf að hliðra til, sem eðlilegt er þegar fjarlægðir eru miklar, og börn eru kannski lengur í sumarfríum og í kringum hátíðir og annað slíkt en sækja engu að síður skóla í tveimur sveitarfélögum. Sveitarfélögunum ber ekki skylda til að taka við þeim en fyrir velvild, sem er sem betur fer alls staðar, þori ég að fullyrða, er tekið við börnunum inn í skólann en sums staðar veldur þetta álagi og þetta er töluvert mikið að umfangi. Ekki það að menn vilji ekki leysa það, en þetta er snúið og þetta er úrlausnarefni. Ég vona og legg til að nefndin skoði þennan þátt. Svo snýr þetta kannski ekki eingöngu að fjármunum. Þetta snýr að því að finna lausnir og annað slíkt. En þegar álagið er orðið mikið á aðra stofnun en þá sem fær greiðslur með barninu þá þarf líklega að skoða það, myndi ég halda. Svo gæti ég alveg, líkt og sá þingmaður sem var í pontu hér á undan, rætt almennt um fjölskyldur og umhverfið um börnin okkar, en ég læt það bíða að sinni.