151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Sem tölvunarfræðingi finnst mér þetta alveg gríðarlega áhugavert vandamál, bara upp á samsetningar að gera og sjálfstæðar samsetningar sem spila á úr. Þess vegna hef ég mjög mikinn áhuga á þessu máli. Fyrir utan kynjavinkilinn finnst mér rosalega áhugavert hvernig reynt er að ná jákvæðum markmiðum með fyrirkomulagi sem felur í sér ákveðinn ómöguleika, eins og hv. þingmaður hefur farið yfir. Það væri þjóðinni til ama ef ekki veldist nefndarmaður í nefnd sem hefur bæði áhuga og þekkingu á þeirri nefnd, hvort sem viðkomandi er karl eða kona, einmitt út af svona vendingum sem við sjáum fram á. Þetta er stórt vandamál almennt séð, kynjavinkillinn og kynjahlutföllin, og mér finnst (Forseti hringir.) þetta alveg gríðarlega áhugavert vandamál sem er verið að reyna að leysa. (Forseti hringir.) En þrátt fyrir það allt tel ég jákvætt að setja það fram á þennan hátt til að reyna alla vega. (Forseti hringir.) En þetta er rosalega áhugavert vandamál.